Erlent

Láku óvart upplýsingum um leiðtoga G20 ríkjanna

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Upplýsingarnar eru frá því að leiðtogarnir hittust í Ástralíu á síðasta ári.
Upplýsingarnar eru frá því að leiðtogarnir hittust í Ástralíu á síðasta ári. Vísir/Getty Images
Persónuupplýsingar leiðtoga G20 ríkjanna var fyrir mistök lekið til skipuleggjenda Asíubikarsins í fótbolta. Meðal upplýsinga eru vegabréfanúmer leiðtoganna. Guardian greinir frá þessu og segir að þjóðarleiðtogarnir hafi ekki verið látnir vita. Upplýsingarnar láku frá áströlskum stjórnvöldum en leiðtogarnir hittust þar á fundi á síðasta ári.



Meðal þeirra leiðtoga sem upplýsingalekinn hefur áhrif á eru Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, Vladimir Putin, forseti Rússlands, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og kínverski forsetinn Xi Jinping.



Gagnalekinn átti sér stað 7. nóvember síðastliðinn og var það embættismaður hjá innflytjendastofnun Ástralíu sé gerði persónuverndarstofnun landsins viðvart um málið. 



Í umfjöllun Guardian kemur fram að mistök starfsmannsins hafi falist í því að hann gáði ekki hvort að rétt nafn var valið þegar póstforritið Microsoft Outlook fyllti sjálfkrafa út nafn viðtakandans þegar fyrstu stafir nafns viðkomandi voru slegnir inn. Pósturinn endaði því á röngum stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×