Fótbolti

Lahm: Mætum nú alvöru stórliði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Philipp Lahm var brosmildur á blaðamannafundinum í dag.
Philipp Lahm var brosmildur á blaðamannafundinum í dag. Nordic Photos / Getty Images

Philipp Lahm sendi Englendingum skýr skilaboð með því að segja að fyrst nú þurfa Þjóðverjar að mæta alvöru stórliði en liðið mætir Argentínu í fjórðungsúrslitum HM í Suður-Afríku.

Þýskaland fór illa með England í 16-liða úrslitunum og vann þá 4-1 stórsigur.

„Við þurfum að sýna að við getum unnið alvöru stórlið eins og Argentínu, Brasilíu eða Spán. Þetta eru án efa stærri andstæðingar en England," sagði Lahm við fréttamenn í dag.

Oliver Bierhoff, einn forráðamanna þýska landsliðið, tók í svipaðan streng. „Þetta verður ekki auðvelt á laugardaginn því Argentína er sterkara lið en það enska."

„Argentína er miklu kraftmeira og sterkara. Það eru afar fáir veikleikar í liðinu en örugglega er hægt að finna einhverja."

Hvorki Lukas Podolski né Mesut Özil æfðu með Þjóðverjum í morgun en engu að síður er búist við því að þeir verði orðnir klárir í slaginn á laugardaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×