Innlent

Læknar úr opinberum störfum á einkastöðvar

Ingvar Haraldsson skrifar
Þorbjörn jónsson, formaður læknaráðs landspítali. heilbrigðismál talsmaður lækna.
Þorbjörn jónsson, formaður læknaráðs landspítali. heilbrigðismál talsmaður lækna.
Læknar hafa áhyggjur af því að nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar verði ekki til þess að heimilislæknum fjölgi á höfuðborgarsvæðinu heldur flytji heimilislæknar sig úr opinbera geiranum yfir í einkageirann.

„Við viljum auðvitað fjölga læknunum en ekki bara brjóta þá upp og láta þá fara í eitthvert annað hús,“ segir Óskar Sesar Reykdalsson, settur framkvæmdastjóri lækninga á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í Fréttablaðinu í gær var greint frá því að Ríkiskaup hygðust ganga til samninga um tvær nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, aðra við Bíldshöfða í Reykjavík og hina við Urriðahvarf í Kópavogi. Aðeins þrjú tilboð bárust í þær þrjár heilsugæslustöðvar sem auglýst var eftir og var einu tilboðinu hafnað.

Í stjórn Heilsugæslunnar Höfða, sem stofnuð var um heilsugæslustöð á Bíldshöfða, eru fimm læknar, en fjórir þeirra koma úr heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Gunnlaugur Sigurjónsson, stjórnarformaður félagsins, sem sjálfur starfar sem heimilislæknir í heilsugæslustöðinni í Árbæ, sagði við Fréttablaðið í gær að alls yrðu læknarnir á nýju stöðinni tíu. Einhverjir þeirra kæmu úr námi eða störfum að utan.

Hin heilsugæslustöðin sem Ríkiskaup féllust á að leita samninga við er á vegum aðila sem tengjast Heilsuvernd sem er fyrir með ýmiss konar læknisþjónustu í Glæsibæ.

Þá segir Óskar að tryggja þurfi að nægt fjármagn fylgi breytingunum en samhliða nýjum stöðvum á að taka upp nýtt greiðslukerfi til heilsugæslustöðva um næstu áramót. „Flestir sem ég hef heyrt í hafa verið á því að fjármagnið sé af skornum skammti og það sé ein af ástæðunum fyrir því að ekki hafi verið slegist um þetta rekstrarmódel,“ segir hann.

Óskar segir flesta heimilislækna mjög jákvæða fyrir því að gera breytingar á greiðslufyrirkomulaginu og fyrir fjölgun heimilislækna en til að það megi vera sé ljóst að ríkið þurfi að setja meira fé í rekstur heilsugæslunnar.

„Þetta leiðir vonandi til meira framboðs á læknum, ekki bara til þess að læknar taki sig upp af öðrum stöðvum og flytji sig á nýju stöðvarnar heldur að það komi nýir læknar til starfa sem ekki hafa starfað í þessu kerfi,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, um breytingarnar á greiðslukerfinu og nýju stöðvarnar. 

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×