Viðskipti innlent

Lækkun olíuverðs kemur útgerðinni vel

Heimir Már Pétursson skrifar
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS
Mikil lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu kemur útgerðinni verulega til góða en kaup á henni eru stærsti kostnaðarliður útgerðarinnar á eftir launum. Vöruskiptasamningar við Nígeríu, sem skortir gjaldeyrir, koma vart til greina vegna upplausnar í stjórnmálum landsins.

Olíutunnan kostaði rúma hundrað dollara fyrir tæpu ári. En á undanförnum vikum hefur verðið nánast hrapað eða um 30 prósent og undanfarna daga hefur verðið verið undir fimmtíu dollurum. Olíuverðið skiptir miklu máli fyrir útgerðina í landinu.

Olíuverð á heimsmörkuðum í dag hefur verið á bilinu 39 til rúmlega 43 dollarar og sumir spá því að það eigi eftir að lækka enn meira á næstu mánuðum.

Hvað er olían stór hluti af rekstrarkostnaði útgerðarinnar á Íslandi?

„Við áætlum að það sé í venjulegu ári í kringum 20 prósent af útgerðarkostnaði. Þannig að hún er verulegur hluti, næst stærsti útgjaldaliðurinn á eftir launum,“ segir Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Það hlýtur þá að muna um það núna þegar heimsmarkaðsverðið á olíunni hefur nánast hrunið á undanförnum vikum?

„Já, það eru að sjálfsögðu jákvæðar fréttir fyrir útgerðina þó þetta hafi ýmsar afleiddar afleiðingar í för með sér  eins og við þekkjum í Rússlandi og Nígeríu sem eru okkar markaðslönd,“ segir Kolbeinn og vísar þá til lokunar markaða fyrir makríl í þessum löndum.

Útflutningur á olíu skiptir Rússa og Nígeríumenn, aðalkaupendur á íslenskum makríl,  miklu máli varðandi útflutningstekjur, sem eðli málsins samkvæmt hafa hrunið. Til að mynda gera rússnesk fjárlög þessa árs ráð fyrir að meðalverð á olíu verði 90 dollarar á þessu ári.

Kolbeinn segir að það eigi við um útgerðina eins og bíleigendur að lækkun olíuverðs á heimsmarkaði skili sér ekki öll.

„Og við erum að meta það að þótt olían hafi lækkað u.þ.b. 50 prósent á heimsmarkaði erum við að horfa á lækkun  upp á nær 20 prósentum miðað við forsendur dagsins í dag,” segir Kolbeinn.

Engu að síður skipti þessi olíuverðslækkun verulega miklu máli fyrir útgerðina þótt ekki hafi verið reiknað út hvort hún vegi að fullu upp á móti tekjutapi af makrílnum.

Á tímum Sovétríkjanna voru gerðir vöruskiptasamningar við Sovétmenn sem borguðu fyrir fisk með bílum og olíu. Nú eiga Nígeríumenn lítinn gjaldeyri en gnægt olíu. Kolbeinn segir slíka samninga ekki góða í heimi frjálsra viðskipta og að auki sé ástandið í Nígeríu erfitt til samninga.

„Þar er ekki starfandi ríkisstjórn. Það að ná samskiptum inn í opinberar stofnanir er nánast útilokað. Þannig að koma nokkrum samningum í kring er í besta falli flókið,” segir Kolbeinn Árnason.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×