Viðskipti innlent

Kynna nýjan hita- og þrýstimæli

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hörður Arnarson forstjóri Landskirkjunnar.
Hörður Arnarson forstjóri Landskirkjunnar. vísir/vilhelm
Íslenska sprotafyrirtækið GIRO ehf.  kynnti í gær, fimmtudaginn 6. mars, nýjan og hita- og þrýstimæli sem mun nýtast við rannsóknir og boranir á háhitasvæðum.

Nýi mælirinn, HP1, skráir hita og þrýstingí borholum við allt að 400°C. Hann er afrakstur tveggja ára þróunarvinnu hjá sprotafyrirtækinu GIRO ehf., sem stofnað var árið 2011.

GIRO ehf. vinnur jafnframt að þróun hitaþolins stefnu og hallamælis  G1 sem nú er í prófunum. Vonir standa til þess að hægt verði að ljúka vinnunni síðar á þessu ári. Nýi mælirinn G1 er hitaþolnari en eldri mælar.

Hann eykur skilvirkni og dregur úr kostnaði við boranir á háhitasvæðum, því til þessa hefur þurft að gera hlé á borunum og kæla holur til þess að mæla nákvæmlega stefnu og halla. G1 ásamt HP1 munu nýtast bæði við rannsóknir á bortíma og við eftirlit með borholum eftir að orkuvinnsla hefst.

Landsvirkjun starfaði með GIRO að þróun mælisins frá upphafi, bæði með fjárstuðningi og tækniaðstoð auk þess að veita aðgengi að búnaði og borholum til prófana. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tók við fyrsta mælinum við athöfn í Hörpu í dag.

„Landsvirkjun hefur stutt þróun verkefna sem fyrirtækið telur stuðla að framþróun orkunýtingar á Íslandi. Eitt þessara verkefna er þróun sprotafyrirtækisins GIRO ehf á borholumælum. Það hefur verið ánægjulegt að vinna með GIRO, skiptast á reynslu og ferskum hugmyndum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Frummælingar hita og þýstimælisins HP1, sem unnar voru í samstarfi við Mannvit hf., Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun lofa góðu og voru niðurstöður mælinga á Kröflusvæðinu kynntar í Hörpu í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×