Skoðun

Kynjajafnrétti og Hæstiréttur

Ragnheiður Bragadóttir og Brynhildur G. Flóvenz skrifar
Nú í ár hefur þess verið minnst að 100 ár eru frá því konur fengu kosningarétt á Íslandi. Jafnframt eru tæp 40 ár síðan fyrst voru sett hér lög um jafnrétti karla og kvenna. Tilgangur laga um það efni hefur ætíð verið sá að konur og karlar nytu fullkomins jafnréttis á öllum sviðum þjóðfélagsins.

Á undanförnum dögum hefur bæði skipan dómnefndar til þess að meta hæfni umsækjenda um embætti dómara, skv. 1. mgr. 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla, og niðurstaða nefndarinnar um hæfni þeirra einstaklinga er sóttu um embættið vakið verðskuldaða athygli. Nefnd, sem eingöngu er skipuð körlum, kemst að þeirri niðurstöðu að annar karlanna af þremur hæfum umsækjendum um embætti hæstaréttardómara sé hæfastur til að gegna embættinu og þar með hæfari en eina konan sem sótti um. Hin karllæga skipun nefndarinnar er réttlætt með því að jafnréttislög taki ekki til nefndar þessarar. Fastskipaðir hæstaréttardómarar eru nú 8 karlar og 1 kona.

Þessi túlkun laga um dómstóla og jafnréttislög getur ekki gengið upp. Hér þarf engin flókin lagarök. Það er svo sjálfsagt að jafnréttislög gildi um öll svið samfélagsins að það er hafið yfir allan vafa enda verður að túlka lög í samræmi við tilgang þeirra. Það má heldur ekki gleymast að lögin eiga að þjóna samfélaginu, samfélagi hér á Íslandi þar sem karlar og konur eiga að njóta fullkomins jafnréttis. Önnur túlkun laganna er andstæð heilbrigðri skynsemi og ákvæðum stjórnarskrár um jafnrétti kynjanna.

Það hefur reynst erfitt að finna heppilega aðferð við skipan dómara. Að láta slíkt vald algerlega í hendur stjórnmálamanna tryggir ekki sjálfstæði dómstólanna. Að láta dómendum það sjálfum í hendur, sem er sú leið sem farin hefur verið frá 2010, hefur heldur ekki reynst gallalaus.

Endurspegli samfélagið

Í lögunum er þó sá varnagli að ráðherra getur borið málið undir Alþingi. Hafi einhvern tíma verið ástæða til að nota þá heimild er hún nú fyrir hendi. Skipan æðsta dómstóls landsins verður að endurspegla það samfélag sem við búum í. Langt er síðan hlutföll kynjanna í laganámi urðu jöfn og á undanförnum áratugum hefur fjöldi kvenna lokið laganámi og öðlast starfsreynslu sem er fyllilega sambærileg reynslu karla. Því er enginn hörgull á konum sem eru hæfar til að taka sæti í nefnd um dómarastörf og til að gegna embætti hæstaréttardómara. Það kynjamisrétti sem í þessu máli hefur komið skýrt í ljós er síst til þess fallið að auka traust almennings á dómstólum, en hvergi á Norður­löndum ber almenningur jafnlítið traust til dómstóla og á Íslandi.

Það er von okkar að löggjafi og framkvæmdarvald sýni í verki að á Íslandi sé jafnrétti kvenna og karla tryggt í reynd með því að gera nauðsynlegar breytingar á ákvæðum um skipan dómara í dómstólalögum sem tryggi eðlilega skipan nefndar um dómarastörf og láti reyna á ákvæði núgildandi laga um aðkomu Alþingis við skipan dómara. 100 ára afmælis þess mikilvæga áfanga að konur á Íslandi fengu kosningarétt verður ekki betur minnst.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×