Erlent

Kvikmyndaframleiðandi frá Wall Street verður fjármálaráðherra Bandaríkjanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Steve Mnuchin.
Steve Mnuchin. Vísir/Getty
Reiknað er með að Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna muni tilnefna Steve Mnuchin, í embætti fjármálaráðherra í dag. Mnuchin starfaði áður hjá Goldman Sachs bankanum og hefur framleitt fjölda Hollywood kvikmynda. New York Times greinir frá.

Mnuchin starfaði einnig sem fjármálastjóri kosningaherferðar Trump fyrir forsetakosningarnar. Hann starfaði í sautján ár fyrir Goldman Sachs bankann á Wall Street, fjármálahverfi New York borgar.

Árið 2002 stofnaði hann eigið fjármálafyrirtæki en á undanförnum árum hefur hann einbeitt sér að fjármögnun Hollywood-kvikmynda á borð við Avatar, Mad Max, og Suicide Squad en á Internet Movie Database má sjá að Mnuchin er skráður framleiðandi fjölda kvikmynda.

Fjármögnun kvikmynda eru þó ekki einu afskipti hans af heimi Hollywood. Hann lék lítið hlutverk í nýjustu mynd Warren Beatty, Rules Don't Apply, sem er nýkomin í kvikmyndahús vestanhafs.

Mnuchin er 53 ára og þarf að vera samþykktur af Bandaríkjaþingi áður en hann tekur við embætti. Líkt og fyrr segir er reiknað með að tilkynnt verði um tilnefningu Mnuchin í dag en Trump hefur þegar tilnefnt fjóra af þeim fimmtán ráðherrum sem sitja í ríkisstjórn Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×