Erlent

Kuznetsov kallaður aftur til Rússlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov.
Flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov. Vísir/AFP
Varnarmálaráðuneyti Rússlands segist ætla að draga úr hernaðarlegum umsvifum ríkisins í Sýrlandi. Fyrsta skrefið verður að senda flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov, og önnur skip, aftur til Rússlands.

Hershöfðinginn Valery Gerasimov tilkynnti þetta í dag og sagði ákvörðunina hafa verið tekna af Vladimir Putin, forseta Rússlands, þann 29. desember. Rússar hafa stutt við bakið á Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og stjórnarher hans í átökum í Sýrlandi í rúmt ár.

Stjórnarherinn tók Aleppo úr höndum uppreisnarhópa í síðasta mánuði og vopnahlé sem runnið er undan rifjum Rússa og Tyrkja hefur nú verið í gildi í tæpa viku. Gerasimov tók þó ekki fram hve umfangsmikil fækkun herliðsins í Sýrlandi á að vera.

Kuznetsov er eina flugmóðurskip Rússlands og kom það að ströndum Sýrlands um miðjan nóvembermánuð. Þetta er í fyrsta sinn sem að skipið hefur verið notað til bardagaaðgerða og tvær orrustuþotur af þeim fimmtán sem hafa verið á flugmóðurskipinu fórust í þeim aðgerðum.

SU-33 þota brotlenti í miðjarðarhafið í desember á leið til Kuznetsov eftir loftárásir í Sýrlandi. Þá brotlenti MiG-29 í sjónum þegar flugmaður hennar reyndi að lenda á Kuznetsov.

Skömmu eftir að flugmóðurskipið kom að ströndum Sýrlands bárust fregnir af því að flugvélar skipsins væru komnar í land og að þeim væri þess í stað flogið frá Humaymim herstöðinni í Latakia héraði. Því hefur verið haldið fram að ferðalag skipsins til Sýrlands hafi í raun verið auglýsingabrella.

Kutznetsov var tekinn í notkun í desember 1985 og er því kominn til ára sinna. Í síðasta mánuði sagði TASS fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, að aðgerðir flugmóðurskipsins í Sýrlandi myndu hjálpa til við þróun og smíði nýs flugmóðurskips.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands, birti þetta myndband af flugmóðurskipinu á miðvikudaginn.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×