Viðskipti innlent

Kröfuhafar nálgast Hannes

FI fjárfestingar ehf., félag í eigu Hannesar Smárasonar, var tekið til gjaldþrotaskipta á föstudag. Í kjölfarið mun skilanefnd Glitnis geta krafið Hannes um 400 milljónir króna vegna sjálfskuldarábyrgðar sem hann gekkst undir þegar FI fjárfestingar, sem hétu áður Fjárfestingafélagið Primus ehf., fékk tvö kúlulán hjá bankanum í lok árs 2007. Lánin standa nú í um 4,7 milljörðum króna.

Skilanefnd Glitnis höfðaði mál á hendur Hannesi og félaginu vegna lánanna tveggja. Í febrúar var félaginu gert að greiða skilanefndinni 4,7 milljarða króna vegna þessa. Dómurinn staðfesti auk þess fyrsta veðrétt í atvinnuhúsnæði Hannesar að Faxafeni 12 og fimm sumarbústaðalóðum sem hann átti við Illagil í Grafningi.

Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Hannesi bæri ekki að greiða sjálfskuldarábyrgðina „að svo stöddu". Því var ekki hægt að innheimta hana fyrr en fasteignin og sumarbústaðalóðirnar yrðu seldar á uppboði. Það gerðist nýverið og fengust nokkrir tugir milljóna króna fyrir þær. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins fór uppboðið á sumarbústaðalóðunum fram í 20 stiga frosti.

Í kjölfarið gerði skilanefndin tilraun til fjárnáms hjá FI fjárfestingum. Í úrskurði héraðsdóms, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að ekki hafi tekist að boða Hannes til fjárnámsgerðar "þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir". Fjárnáminu lauk án árangurs.

Lögmaður Hannesar hélt því fram að aðfarargerðirnar væru ólögmætar. Því var héraðsdómur ósammála og úrskurðaði á föstudag að bú FI fjárfestinga yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Skilanefndin mun í kjölfarið höfða mál á hendur Hannesi og krefjast þess að hann greiði 400 milljónir króna vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar. Heimildir herma að allur málatilbúnaður liggi fyrir. Einungis eigi eftir að birta Hannesi stefnuna.

- þsj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×