Innlent

Kristján Þór efstur fyrir norðan, Tryggvi þór komst ekki á lista

Talningu er nú lokið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. 2714 greiddu atkvæði en 4400 voru á kjörskrá og kjörsókn því tæp 62 prósent.

Fyrsta sætið hreppti Kristján Þór Júlíusson, í öðru sæti varð Valgerður Gunnarsdóttir og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir hreppti þriðja sætið. Í fjórða sæti varð Jens Garðar Helgason, í því fimmta Erla S. Ragnarsdóttir og sjötta sætið hreppti Bergur Þorri Benjamínsson.

Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður sem ásamt Kristjáni Þór sóttist eftir efsta sætinu náði ekki einu af sex efstu sætunum og á Facebook síðu sinni segist hann hættur í pólitík.

Og lokatölur liggja einnig fyrir í prófkjöri Sjálfstæðismanna á Suðurlandi. Þar varð Ragnheiður Elín Árnadóttir langefst, Unnur Brá Konráðsdóttir er í öðrusæti og Ásmundur Friðriksson í þriðja. Fjórða sætið hreppti Vilhjálmur Árnason og Geir Jón Þórisson lenti í fimmta sæti.

Athygli vekur að Árni Johnsen alþingismaður, sem sóttist eftir efsta sætinu, náði ekki einu af fimm efstu sætunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×