Erlent

Kristína Spánarprinsessa sýknuð í skattamáli

atli ísleifsson skrifar
Inaki Urdangarin, Kristína Spánarprisessa og Diego Torres.
Inaki Urdangarin, Kristína Spánarprisessa og Diego Torres. Vísir/AFP
Dómstóll á Mallorca á Spáni hefur sýknað Kristínu Spánarprinsessu af ákæru um skattsvik. Eiginmaður hennar, Inaki Urdangarin, hlaut hins vegar sex ára og þriggja mánaða dóm í málinu.

Hin 51 árs Kristína er systir Filippusar Spánarkonungs og sjötta í erfðaröðinni.

Urdangarin var sakaður um að hafa nýtt tengsl sín við konungsfjölskylduna til að auka viðskiptatekjur sem hann nýtti svo til einkaneyslu.

Málið kom upp árið 2010 og var álitið tákn um meinta spillingu hástéttarinnar.

Auk Kristínar og Urdangarin voru sextán manns til viðbótar ákærðir, meðal annars fyrrverandi ráðherrann Jaume Matas sem hlaut þriggja ára og átta mánaða dóm.

Viðskiptafélagi Urdangarin, Diego Torres, var dæmdur til átta og hálfs árs fangelsisvistar. Níu sakborninganna voru alls sýknaðir.

Kristína, sem býr í Sviss, er sú fyrsta í konungsfjölskyldunni sem dregin er fyrir dóm frá endurreisn konungsveldisins árið 1975.

Filippus konungur svipti Kristínu og Urdangarin titlum sínum sem hertogi og hertogaynja af Mallorca árið 2015. Þau neituðu bæði sök í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×