Handbolti

Kretzschmar: Sambandið hefði átt að borga Degi meira

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson í útsendingu ARD í Þýskalandi með þeim Gerhard Delling og Stefan Kretzschmar eftir að Þýskaland varð Evrópumeistari.
Dagur Sigurðsson í útsendingu ARD í Þýskalandi með þeim Gerhard Delling og Stefan Kretzschmar eftir að Þýskaland varð Evrópumeistari. Mynd/Skjáskot
Stefan Kretzschmar, fyrrum landsliðsmaður Þýskalands í handbolta og einn helsti handboltasérfræðingur Þjóðverja, er enn ósáttur við að Dagur Sigurðsson muni hætta sem þjálfari þýska landsliðsins eftir HM í handbolta.

Eins og kunnugt er ákvað Dagur að nýta sér riftunarákvæði í samningi sínum við þýska handknattleikssambandið. Samningur hans var í gildi til 2020 en með því að nýta sér ákvæðið gat hann hætt strax eftir HM í Frakklandi.

Það gerði hann í haust og samdi við handknattleikssamband Japans til ársins 2024. Hann hefur þar störf um næstu mánaðarmót.

„Þýska sambandið barðist aldrei nógu mikið fyrir því að halda Degi,“ sagði Kretzschmar í samtali við Welt am Sonntag. „Þvert á móti var því tekið þegandi og hljóðalaust þegar það var tilkynnt að hann myndi nýta sér riftunarákvæðið.“

Sjá einnig: Dagur þakkar fyrir sig: Árið sem ég borðaði hamborgara með Merkel og spilaði golf með Beckenbauer

Síðan að Dagur tók við þýska landsliðinu hefur hann gert liðið að Evrópumeistara og bronsliði á Ólympíuleikum eftir margra ára lægð þýska liðsins.

Kretzschmar segir að það hefði átt að borga Degi meira og fjarlægja um leið riftunarákvæðið úr samningi hans um leið og hann vann Evrópumeistaratitilinn fyrir ári síðan.

„Ég veit að það var sátt á meðal þjálfara í þýsku úrvalsdeildinni að hjálpa til fjárhagslega til að halda Degi í starfi. En það virtist ekki hafa náð í gegn hjá þeim í sambandinu.“

Christian Prokop og Markus Baur eru sagðir líklegastir til að taka við starfinu af Degi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×