Lífið

Kostar 115 þúsund að vera með: Dýrasta pókermót í sögu Íslands

Freyr Bjarnason skrifar
Davíð Þór er formaður Pókersambands Íslands sem stendur fyrir Íslandsmótinu í Stórbokka.
Davíð Þór er formaður Pókersambands Íslands sem stendur fyrir Íslandsmótinu í Stórbokka. Vísir/Valli
Dýrasta pókermót Íslandssögunnar verður haldið á Grand hóteli á laugardag. 115 þúsund krónur kostar að taka þátt og spilararnir sem detta út mega kaupa sig aftur inn fyrir 100 þúsund.

Aldrei áður hefur Pókersamband Íslands haldið mót með svo háum fjárhæðum.

Mest geta 48 spilað í einu og í gær höfðu um 40 manns skráð sig. Keppt verður í Stórbokka, eða High Roller, og spilað verður fyrir luktum dyrum.

Davíð Þór Rúnarsson, formaður Pókersambands Íslands, segir að von sé á öflugum spilurum. „Það sem fólk kannski veit ekki er að fjölmargir íslenskir pókerspilarar eru í heimsklassa. Þarna eru því samankomnir alvöru stórbokkar, bestu spilararnir í bland við vel fjáða einstaklinga,“ segir hann.

Spilað verður á efri hæðum hótelsins við fyrsta flokks aðstæður og verður þríréttaður kvöldverður snæddur í hliðarsal.

Að sögn Davíðs Þórs er algjörlega farið að lögum. „Nýverið fékk ég sent bréf frá forseta Sport's Accord um að Alþjóða pókersambandið væri nýjasti meðlimur sambandsins. Sport's Accord heldur utan sambönd eins og FIFA og Alþjóða handboltasambandið og í rauninni alþjóðleg sambönd allra löglegra íþróttagreina hérlendis. Svo svarið er já, mótapóker er löglegur á Íslandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×