Erlent

Komast ekki að líkum vegna bardaga

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Nærri því tveimur vikum eftir að malasíska farþegaflugvélin MH 17 var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu, liggja lík enn á jörðinni. Ættingjar farþeganna eru orðnir hræddir um að koma höndunum aldrei yfir leifar fjölskyldumeðlima sinna.

Bardagar á milli stjórnarhers Úkraínu og aðskilnaðarsinna hafa komið í veg fyrir að alþjóðlegur rannsóknarhópur komist á vettvang. Hópnum er ætlað að rannsaka brak vélarinnar og finna lík og bera kennsl á þau.

AP fréttaveitan segir frá því að aðskilnaðarsinnarnir, sem fundu 200 af 298 farþegum vélarinnar, eru nú hættir leit. Þeir segja það vera vegna árása stjórnarhersins.

Ekki er ljóst hve mikið er eftir af líkum fólksins. Hiti á svæðinu hefur verið um 32 gráður þau hafa legið undir berum himni í nærri því tvær vikur.

Forsætisráðherra Hollands segir það þó vera forgangsverk ríkisstjórnar sinnar að ná öllum til síns heima. Þrátt fyrir það eru menn ekki vongóðir um að komast að svæðinu á næstunni.

„Við gerum ekki ráð fyrir því að öryggið muni aukast nægilega á næstu dögum,“ sagði Pieter-Jaap Aalsbersberg, úr rannsóknarhópnum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir því að bæði stjórnarherinn og aðskilnaðarsinnar lýsi yfir vopnahléi svo hægt sé að finna líkin.

„Fjölskyldur fórnarlamba þessa harmleiks eiga skilið að fá lokun og heimurinn heimtar svör. Alþjóðlegi hópurinn verður að fá að vinna sína vinnu,“ segir Stephane Dujarric, talsmaður sþ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×