Enski boltinn

Kolo Touré: Brendan Rodgers er gáfaður eins og Wenger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og Brendan Rodgers.
Arsene Wenger og Brendan Rodgers. Vísir/Getty
Kolo Touré, núverandi leikmaður Liverpool og fyrrum leikmaður Arsenal, segir að knattspyrnustjóri sinn í dag, Brendan Rodgers, sé að mörgu leyti líkur Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal frá árinu 1996.

Liverpool-liðið hefur ekki unnið leik í nóvember (búnir að spila fimm) og fengu á sig jöfnunarmark á 88. mínútu í Meistaradeildinni á móti Ludogorets á miðvikudagskvöldið.

„Þetta er erfiður tími fyrir alla en við verðum að standa saman og berjast fyrir þennan knattspyrnustjóra. Hann er þess virði því hann er einn af þeim bestu í ensku úrvalsdeildinni. Hann er enn ungur af knattspyrnustjóra að vera og þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur þátt í Meistaradeildinni. Hann er að læra," sagði Kolo Touré við Guardian.

„Ég sé Wenger í honum af því að hann er svo gáfaður. Hann veit hvernig á að tala við leikmenn og hvernig að ná því besta út úr þeim. Skoðið bara hvað hann hefur gert hér á stuttum tíma," sagði Kolo Touré og bætti við:

„Þegar hann kom hingað var Liverpool ekki í góðum málum. Hann kom sterkur inn og reif liðið upp. Það er erfiðari að halda liðinu þar en hann er að læra og þetta tímabil þarf að fara inn í reynslubankann" sagði Kolo Touré.

„Brendan er sanngjarn maður sem vinnur mikið og gefur alltaf hundrað prósent af sér á hverjum degi. Eins og Arsene þá er hann alltaf mættur á æfingarnar til þess að laga hluti. Þeir spila líka svipaðan bolta. Hann vill að við sendum alltaf boltann og að við höldum alltaf áfram að spila sem er mjög mikilvægt," sagði Kolo Touré.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×