Enski boltinn

Klopp um Benteke: Allir framherjar ganga í gegnum svona tímabil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benteke var miður sín eftir að hafa klúðrað dauðafæri í framlengingunni gegn West Ham.
Benteke var miður sín eftir að hafa klúðrað dauðafæri í framlengingunni gegn West Ham. vísir/getty
Christian Benteke, framherji Liverpool, hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu og ekki skorað í síðustu 11 leikjum liðsins.

Þrátt fyrir þessa markaþurrð stendur Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, þétt við bakið á sínum manni.

„Allir framherjar, sem hversu góðir eða lélegir þeir eru, ganga í gegnum svona tímabil,“ sagði Klopp.

„Þú verður að halda áfram. Þú verður að spila og halda áfram að bæta þig, þannig gengur þetta alltaf fyrir sig.“

Benteke klúðraði dauðafæri í framlengingunni þegar Liverpool féll úr leik fyrir West Ham í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í gær.

„Hann spilaði mjög vel en það vantaði að klára færin. Hann var mjög duglegur sem er skref í rétta átt. Það er gott fyrir okkur og gott fyrir hann,“ sagði Klopp um frammistöðu Benteke í gær.

Þrátt fyrir tapið var Klopp ánægður með að vera búinn að endurheimta Philippe Coutinho, Daniel Sturridge og Divock Origi úr meiðslum.

Coutinho, sem skoraði mark Liverpool í 2-1 tapinu fyrir West Ham, Sturridge og Origi léku allir í um klukkutíma í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×