Fótbolti

Klopp hefur samþykkt tilboð Liverpool og flýgur til Englands í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Jürgen Klopp verður næsti knattspyrnustjóri Liverpool en Sky hefur heimildir fyrir því að þessi fyrrum stjóri Borussia Dortmund hafi samþykkt tilboð Liverpool um að verða stjóri enska félagsins.

Brendan Rodgers var rekinn sem knattspyrnustjóri Liverpool á sunnudaginn og Jürgen Klopp var strax sterklega orðaður við starfið.

Liverpool hafði samband við Jürgen Klopp á mánudaginn en þá var líka haft samband við Carlo Ancelotti. Carlo Ancelotti hafði ekki áhuga og því fóru forráðamenn Liverpool á fullt að ræða við Klopp.

Jürgen Klopp mun fljúga til Liverpool í kvöld samkvæmt frétt Sky og ganga frá samningnum en hann verður síðan væntanlega kynntur sem nýr knattspyrnustjóri félagsins á morgun.

Jürgen Klopp er 48 ára gamall og hefur verið atvinnulaus síðan að hann hætti með lið Borussia Dortmund síðasta haust. Hann stýrði Dortmund-liðinu í sjö ár og gerði Dortmund tvisvar að þýskum meisturum.

Sky hefur heimildir fyrir því að þrír úr starfsliði Brendan Rodgers, aðstoðarstjórinn Sean O'Driscoll ásamt þeim Glen Driscoll og Chris Davies, muni allir hætta hjá félaginu en að Pep Ljinders munu starfa áfram. Þá hefur  Gary McAllister fengið tilboð um að vera í þjálfaraliði Klopp.

BBC segir frá því að Klopp muni skrifa undir þriggja ára samning í kvöld eða á morgun og að þeir Zeljko Buvac og Peter Krawietz, fyrrum aðstoðarmenn hans hjá Borussia Dortmund, fylgi honum til Liverpool.

Liverpool er eins og er í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa bara unnið 3 af fyrstu 8 leikjum sínum á tímabilinu. Það er því mikið starf framundan hjá Jürgen Klopp ætli hann að koma liðinu í hóp bestu liða deildarinnar á ný.


Tengdar fréttir

Ráðning Klopp staðfest í dag

Enskir fjölmiðlar eru á einu máli um að Jürgen Klopp verði næsti knattspyrnustjóri Liverpool.

Von á Klopp á morgun

Liverpool langt á veg komið í viðræðum við Jürgen Klopp.

Arnar: Liverpool yrði fullkomið starf fyrir Klopp

Ákvörðun Liverpool að reka Brendan Rodgers var rædd í Messunni í gær auk þess sem þeir ræddu orðróminn um að Jürgen Klopp yrði næsti knattspyrnustjóri Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×