Innlent

Klæðalítil kona, líkamsárás og stolnir kafarabúningar

Gissur Sigurðsson skrifar
Var í G-streng einum klæða og var í svo mikilli vímu að hún gat ekki gefið deili á sér
Var í G-streng einum klæða og var í svo mikilli vímu að hún gat ekki gefið deili á sér Vísir/Pjetur
Lögreglu barst í gærkvöldi tilkynning um konu í annarlegu ástandi á Hverfisgötu, og hélt þegar á vettvang. Konan var í G-streng einum klæða og var í svo mikilli vímu að hún gat ekki gefið deili á sér og sefur hún nú úr sér í fangaklefa.

Nokkru fyrr um kvöldið var ölvaður karlmaður handtekinn í Lækjargötu, þar sem hann var að hlaupa fyrir bíla á ferð og skapa hættu. Hann var vistaður í fangageymslu.

Líkamsárás í miðborginni

Þrír menn réðust á einn í miðborginni um kvöldmatarleitið. Þegar árásarmennirnir sáu lögregluna nálgast vettvang tóku þeir til fótanna, en lögreglumenn náðu að hlaupa einn þeirra uppi og handtaka hann. Hinna tveggja er leitað.

Ekki kemur fram í skeyti lögreglunnar hversu alvarlega þolandinn meiddist.

Stálu kafarabúningum

Þjófar stálu tveimur kafarabúningum úr sameiginlegu þurrkherbergi í fjölbýlishúsi í Breiðholti í gærkvöldi. Jafnframt brutust þeir inn í íbúð í húsinu og stálu þaðan tölvu og fleiri verðmætum.

Þeir komust undan, en lögregla hefur rökstuddan grun um hverjir þeir eru og er þeirra nú leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×