Skoðun

Kjör líf­eyris­þega leið­rétt strax

Eygló Harðardóttir skrifar

Elli- og örorkulífeyrisþegar voru meðal þeirra sem fengu hvað þyngstar byrðar á herðarnar í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Kjör þeirra versnuðu með margvíslegum skerðingum á lífeyrisréttindum almannatrygginga.



Þó að alltaf megi deila um hvað sé réttlátt við úthlutun takmarkaðra fjármuna er þó erfitt að réttlæta að aldraðir og öryrkjar axli svo miklar byrðar. Kjör fólks í landinu eru loksins á uppleið en lífeyrisþegar hafa setið eftir, sumir fastir í fátæktargildru vegna margvíslegra víxlverkana og mikilla tekjutenginga lífeyrisgreiðslna. Ég hef því lagt áherslu á að ráðast í leiðréttingar á kjörum lífeyrisþega strax á sumarþingi. Frumvarpið er tilbúið og að mínu mati á ekki að slíta þingi fyrr en málið er í höfn.



7.000 fá hærri lífeyrisgreiðslur

Kjaraskerðingarnar árið 2009 fólust meðal annars í því að tekjutengdar greiðslur skertust að fullu vegna fjármagnstekna í stað þess að skerðast um 50% áður og frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna var lækkað umtalsvert. Lífeyrissjóðstekjur voru teknar inn í útreikning grunnlífeyris og gátu leitt til skerðinga á honum. Síðast en ekki síst var skerðingarhlutfall tekjutryggingar hækkað úr 38,35% í 45%.



Með frumvarpinu mínu verður byrjað að taka á skerðingunum. Þannig verður frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkað úr 480.000 kr. á ári í 1.315.200 kr., eða um 174%. Þá munu lífeyrissjóðstekjur hætta að skerða grunnlífeyrinn, sem er stórt réttlætismál fyrir lífeyrisþega. Framlög ríkisins til almannatrygginga vegna þessara breytinga aukast um 1,6 milljarða á ársgrundvelli. Greiðslur hækka hjá um 7.000 lífeyrisþegum, þar af eru um 2.500 einstaklingar sem ekki hafa fengið greiðslur undanfarið vegna tekjuskerðinga en öðlast rétt til lífeyris á ný.



Þessar breytingar eru fyrsta skrefið að því marki að draga til baka skerðingar sem lífeyrisþegar sættu með lagabreytingum árið 2009. Frumvarpið er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um kjarabætur til lífeyrisþeg, sem forgangsverkefni. Að auki er hafin vinna við afnám annarra skerðinga, meðal annars með lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar úr 45% í 38,35%. Heildaráhrif af væntanlegum bótahækkunum að meðtalinni lækkun skerðingarhlutfallsins eru áætluð um 4,6 milljarðar króna.

Áformuð gildistaka breytinganna er 1. júlí og hækkanir til lífeyrisþega munu birtast í greiðslum til þeirra 1. ágúst næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×