Erlent

Kindur skakkar eftir kannabisát

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Kindur urðu skakkar eftir að hafa étið kannabisplöntur sem kastað hafði verið á tún þar sem þær voru á beit. Sjö pokum af kannabisplöntum hafði verið kastað, sem taldar eru vera um 800 þúsund króna virði. Eigandi þeirra hafði orðið var við furðulegt göngulag kindanna.

„Þær lágu ekki beint á bakinu með lappirnar upp í loftið, en þær voru líklega með „munchies“,“ segir bóndinn.

Á vef Telegraph segir að lögreglan ætli ekki að ákæra kindurnar fyrir atvikið, en þó sé hún staðráðin í að finna út hver losaði sig við plönturnar á túnið.

Í fyrstu hélt Nellie Budd að einhver hefði losað sig við garðúrgang á túnið hjá sér, en hann fann þó fljótt á lyktinni að svo var ekki. Lögreglan lítur málið alvarlegum augum og segir það óábyrgðarfullt að losa sig við kannabisplöntur með þessum hætti.

„Þær hafa ekki sýnt önnur einkenni,“ segir bóndinn við Telegraph. „Ég skal segja ykkur frá kjötinu í næstu viku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×