Handbolti

Kiel stóðst áhlaup Evrópumeistaranna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð er kominn með Kiel í Finar Four í Köln.
Alfreð er kominn með Kiel í Finar Four í Köln. vísir/afp
Alfreð Gíslason er kominn með Kiel í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta þrátt fyrir þriggja marka tap, 33-30, fyrir Evrópumeisturum Barcelona á útivelli í dag.

Kiel vann fyrri leikinn með fimm mörkum, 29-24, og einvígið því samanlagt 59-57.

Kiel var í góðum málum lengst af í Palau Blaugrana í dag en í upphafi seinni hálfleiks leiddu þýsku meistararnir með fjórum mörkum, 15-19.

Þá kom kraftur í Börsunga sem jöfnuðu metin og náðu svo forystunni. Og þegar rúmar fimm mínútur voru eftir kom Guðjón Valur Sigurðsson Barcelona fimm mörkum yfir, 31-26.

Kiel sýndi hins vegar mikla þrautseigju á lokakaflanum, Joan Canellas skoraði þrjú mörk í röð og Niklas Landin varði mikilvæga bolta í markinu.

Leikmenn Kiel stóðust áhlaup Barcelona og fögnuðu vel og innilega þegar lokaflautið gall. Lokatölur 33-30, Barcelona í vil.

Guðjón Valur skoraði fimm mörk fyrir Barcelona í sínum síðasta Evrópuleik fyrir félagið. Raúl Entrerrios var markahæstur í liði Börsunga með sex mörk.

Canellas og Marko Vujin skoruðu sex mörk hvor fyrir Kiel.


Tengdar fréttir

Aron og félagar komnir til Kölnar

Aron Pálmarsson og félagar í Veszprém eru komnir áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta eftir 30-30 jafntefli við Vardar í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitunum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×