Innlent

Kenna erlendum ferðamönnum hvernig á að keyra á Íslandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hvað á að gera þegar einbreið brú er framundan eða þegar kindur eru nálægt?
Hvað á að gera þegar einbreið brú er framundan eða þegar kindur eru nálægt? Vísir
Erlendir ferðamenn fá leiðbeiningar um það hvernig rétt sé að keyra á Íslandi í nýju myndbandi frá markaðsátaki Inspired by Iceland.

Myndbandið sýnir erlendum ferðamönnum hvernig þeir eiga að haga akstri á Íslandi við mismunandi aðstæður, til að mynda þegar einbreið brú er framundan, þegar vegur breytist úr bundnu slitlagi yfir í malarveg eða þegar kindur eru nálægt svo dæmi séu tekin.

Myndbandið er hluti af herferðinni Iceland Academy sem miðar að því að kenna ferðamönnum að ferðast um Ísland á öruggan og ábyrgan máta.

Iceland Academy herferðin er ávöxtur samstarfs þátttakenda Ísland – allt árið. Þær bílaleigur sem eru þátttakendur í Ísland – allt árið, tóku beinan þátt í gerð þessa myndbands og munu geta sýnt viðskiptavinum sínum lengri útgáfu af myndbandinu „How to drive in Iceland“.

Fleiri myndbönd hafa verið gerð undir merkjum Iceland Academy en markmiðið er að upplýsa ferðamenn með skemmtilegum hætti um ýmislegt sem varðar dvöl þeirra á Íslandi. Kennt er hvernig á að umgangast náttúru Íslands, hvar má tjalda og hvernig eigi að hegða sér á baðstöðum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×