Fótbolti

Keegan: Ísland á að sækja innblástur til Leicester og Danmerkur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kevin Keegan er spenntur fyrir íslenska liðinu á EM.
Kevin Keegan er spenntur fyrir íslenska liðinu á EM. vísir/anton brink
Kevin Keegan, fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari Englands sem tvisvar sinnum var kjörinn besti knattspyrnumaður Evrópu, er bjartsýnn fyrir hönd Íslands á EM í Frakklandi í sumar.

Honum líst vel á liðið, segir það vel skipulagt og gott að verjast, en hann vill að íslensku strákarnir þori að sækja þegar tækifæri gefst.

„Það er oft talað um að allt byrji á varnarleiknum. Það er ekki alveg rétt. Fótbolti hvorki byrjar né endar á varnarleiknum,“ sagði Keegan í samtali við Vísi á ráðstefnunni Business and Football á Hörpu í vikunni.

Sjá einnig:Kevin Keegan: Kom ekkert á óvart að Ísland komst á EM

„Eina ástæðan fyrir því að þú ert með vörn er til að halda hreinu og vinna boltann svo þú getir sótt aftur. Eina leiðin til að vinna bestu liðin er að mæta þeim í fótbolta.“

„Það þýðir ekkert fyrir Ísland að láta lið eins og Portúgal vera 80 prósent með boltann í leiknum og vona að það skjóti alltaf í stöng. Þegar rétti tíminn kemur í leiknum verður liðið að þora að sækja.“

Ótrúlegir hlutir hafa gerst.vísir/getty
Ísland verður litla liðið í öllum leikjum sínum á Evrópumótinu en þetta hefur verið ár litlu liðanna. Leicester er Englandsmeistari og lið eins og Albanía og Norður-Írland eru komin á Evrópumótið.

„Ísland á að sækja innblástur til Leicester og einnig Danmörku sem vann Evrópumótið 1992. Danir komust ekki einu sinni á mótið en fengu þátttökurétt því Júgóslavía mætti ekki keppa. Tólf árum síðar vann Grikkland svo EM. Það vann Portúgal ekki bara í fyrsta leik mótsins heldur líka úrslitaleiknum og einnig vann það frábært lið Tékklands í undanúrslitum,“ segir Keegan.

„Nú, tólf árum síðar, getur allt gerst. Ég er kannski ekki að segja að Íslandi verði Evrópumeistari en bilið hefur minnkað á milli liðanna og ekkert lið þarf að óttast neitt á EM.“

„Það er talað um hvað það yrði mikið afrek fyrir Ísland að komast upp úr riðlinum á EM en gleymum því ekki að Ísland komst á EM í gegnum erfiðari riðil í undankeppninni,“ segir Kevin Keegan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×