Viðskipti innlent

Kaupfélögin eru hvergi nærri útdauð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kaupfélag Suðurnesja er stærsti hluthafinn í Samkaupum sem meðal annars reka Nettó.
Kaupfélag Suðurnesja er stærsti hluthafinn í Samkaupum sem meðal annars reka Nettó. fréttablaðið/Pjetur
Fimmtán samvinnufélög eru með skráða kennitölu í fyrirtækjaskrá, en þau eru mjög misjöfn að stærð og burðum. Umsvifamest þeirra eru án efa Kaupfélag Skagfirðinga, KEA, Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Kaupfélag Suðurnesja.

Eignir Kaupfélags Skagfirðinga (KS) eru mestar, en þær nema um 32,3 milljörðum króna og nemur eigið fé 22,2 milljörðum. Eiginfjárhlutfallið er því um 69 prósent. Eins og fram hefur komið er stærsta eignin hundrað prósent hlutur í útgerðarfélaginu FISK-Seafood, en það er fimmta stærsta útgerðarfélagið á Íslandi. Í gegnum útgerðarfélagið á KS ríflega þriðjungshlut í Olíufélagi Íslands. Að auki á KS hlut í Fóðurblöndunni í Reykjavík, Vörumiðlun Sauðárkróki, Vogabæ – móðurfélagi Mjólku, og mörgum fleiri félögum. Þá á KS jafnframt rétt innan við 10 prósent í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Annað mjög burðugt kaupfélag er rekið á Fáskrúðsfirði. Eignir kaupfélagsins og dótturfélaga námu 5,8 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu aukist um 1,8 milljarða frá því í árslok 2011. Stærsta eign Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga er liðlega 80 prósent hlutur í Loðnuvinnslunni, en að auki á félagið hlut í Fjarðarneti. Útgerðarfélagið Loðnuvinnslan er rekið á Fáskrúðsfirði, eins og Kaupfélagið, og gerir einkum út skip í veiðum á uppsjávarfiski. Gísli Jónatansson lét af störfum sem framkvæmdastjóri kaupfélagsins um mitt síðasta ár eftir 38 ára starf. Við tók Friðrik Mar Guðmundsson, sem var áður framkvæmdastjóri Mjólku og Vogabæjar.

„Okkar arður fer í að byggja upp í heimabyggð, byggja upp félagið áfram. Við höfum verið að efla félagið smátt og smátt og við höfum verið að afla meiri veiðiheimilda og keyptum nýtt skip í uppsjávarfiski,“ segir Friðrik Mar. Nýja skipið kom til landsins 6. júlí síðastliðinn. Kaupfélagsstjórinn segir félagið líka leggja mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og bendir sem dæmi á að í sumar hafi kaupfélagið byggt upp sólstofu við elliheimilið í Fáskrúðsfirði. „Heimamenn upplifa það virkilega að þeir eigi þetta félag,“ segir hann.

Stærsta eign Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga er Loðnuvinnslan.Fréttablaðið/GVA
KEA keppir við stóra sjóði

Þriðja kaupfélagið sem vert er að nefna er KEA, en heildareignir KEA námu um síðustu áramót yfir 6,2 milljörðum íslenskra króna og eigið fé var tæplega 4,9 milljarðar króna. KEA á meðal annars 100 prósent hlut í fasteignafélögunum Kl0ppum og H98 sem leigja út fasteignir á Akureyri. Heildarstærð fasteigna í eigu félagsins er 3600 fermetrar. KEA á helmingshlut í Sparisjóði Höfðhverfinga, sem er næstelsta starfandi fyrirtæki landsins og þriðjungshlut í fjárfestingafélaginu Tækifæri. KEA á líka bréf í Icelandair fyrir 11 milljónir króna að nafnverði, en sá hlutur var liðlega 200 milljóna króna að markaðsvirði við áramót. Einnig á KEA hlut í Högum sem var um 116 milljón krónur að markaðsvirði við áramót. Í ársreikningi kemur fram að rekstur KEA var með svipuðu móti á síðasta ári og á árinu 2012. Hagnaðurinn nam 226,7 milljónum króna í fyrra, en hann var tæplega 279 milljónir króna árið á undan. 

Stærstur hluti eigna KEA var seldur fyrir um það bil áratug, eða áður en efnahagshrunið skall á. Fyrir þann tíma átti fyrirtækið afurðastöð, útgerð og fleira líkt og önnur kaupfélög. Nú er félagið að vinna að nýju í fjárfestingum, en í ársskýrslu félagsins fyrir síðasta ár segir að gengið hafi hægar en vonir stóðu til að ná að framfylgja stefnu félagsins, það er að fjárfesta stórt í fáum og jafnvel einu fyrirtæki. Félagið hafi einnig búið við þá sérkennilegu stöðu að keppa um fjárfestingarkosti við aðila sem hafa keypt krónur á 20-30% lægra verði en öðrum býðst í gegnum svokallaða fjárfestingarleið Seðlabankans. „Jafnframt fjölgar sífellt sjóðum sem sérhæfa sig í að finna og fjárfesta í sambærilegum verkefnum og KEA leitar að. Nú eru a.m.k. sex sérhæfðir sjóðir starfandi á þessu sviði með 5-10 milljarða í fjárfestagetu hver og einn; tugir milljarða króna bíða á hliðarlínunni. Samkeppni um hin fáu verkefni er því hörð og langt í frá að þessir sjóðir og önnur fjárfestingarfyrirtæki hafi enn þá náð markmiðum sínum um fjárfestingar,“ segir í ársskýrslunni.

Verslunarrisi

Kaupfélag Suðurnesja er ólíkt hinum félögunum á þann hátt að eiginfjárstaða félagsins er neikvæð. Í ársreikningnum kemur fram að skuldir samstæðunnar umfram eignir séu um það bil 1.120 milljónir króna og eiginfjárstaða móðurfélagsins neikvæð um 696 milljónir króna. Í ársreikningi fyrir árið 2013 segir að móðurfélagið hafi árið 2012 gert samkomulag við stærstu lánardrottna sína sem leiði til þess að rekstrarhæfi félagsins sé tryggt. Á árinu 2013 hafi náðst samkomulag við aðra lánardrottna. Þetta þýddi að höfuðstóll skulda móðurfélagsins var færður niður um 1,5 milljarða króna og samstæðunnar um 1,6 milljarða króna á árinu 2012 og í fyrra voru skuldir færðar niður um 54 milljónir króna. Þetta leiðir til þess að félagið getur staðið undir greiðslu skuldbindinga. Stærsta eign Kaupfélags Suðurnesja er hlutur í Samkaupum en í heild áttu Kaupfélagið og dótturfélög þess um 63 prósent hlut í lok síðasta árs. 

Samkaup reka 48 verslanir á 34 stöðum um landið. Þar á meðal er Nettó, Kaskó, Samkaup úrval og Samkaup strax. Velta Samkaupa og dótturfélagsins Búrs, var tæplega 23,5 milljarðar á síðasta ári og jókst um tæp 3,6 prósent frá fyrra ári. Stærstu eigendur Samkaupa voru, auk Kaupfélag Suðurnesja, Kaupfélag Borgfirðinga ásamt dótturfélagi sem átti 21,9 prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×