Viðskipti innlent

Kaupfélag Skagfirðinga eflir sig í höfuðborginni

Snærós Sindradóttir skrifar
Esja kjötvinnsla er á Bitruhálsi 2.
Esja kjötvinnsla er á Bitruhálsi 2. Fréttablaðið/Vilhelm
Kaupfélag Skagfirðinga (KS) vinnur nú að því að festa kaup á Bitruhálsi 2, iðnaðarhúsnæði í Reykjavík sem áður hýsti Osta- og smjörsöluna. Til stendur að sameina Esju kjötvinnslu Kjötbankanum og Gallerí Kjöti í húsnæðinu en fyrirtækin eru nú öll í eigu kaupfélagsins.

„Við áttum Kjötbankann í Hafnarfirði sem var í allt of litlu húsnæði þannig að við vorum að leita okkur að stærra húsnæði fyrir matvæladreifingu okkar,“ segir Ágúst Andrésson, forstöðumaður Kjötafurðastöðvar KS. „Þá dettum við niður á að kaupa þetta hús. Við gerðum um það samning fyrir svolitlu síðan en þarna var fyrir Kjötvinnslan Esja. Svo þróaðist það þannig að einn af hluthöfunum þar var með sinn hlut í söluferli. Okkur var boðið þetta fyrirtæki og við keyptum það,“ segir Ágúst.

Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga
Markmið kaupfélagsins er að efla markaðshlut sinn í kjötframleiðslu með þessum hætti. Kaupfélag Skagfirðinga á fyrir stóran hlut í sláturhúsinu á Hellu, sláturhúsið á Sauðárkróki og helminginn í sláturhúsinu á Hvammstanga. Ágúst segir að í kjötafurðastöðinni í Reykjavík verði unnið með lamb, naut og svín, meðal annars frá Stjörnu­grís og Ali.

„Við ætlum að vera samkeppnisfærir og öflugir í matvælaframleiðslu á Íslandi og sölu og dreifingu á matvælum. Við erum með afkomu frá þremur afurðastöðvum. Tilgangurinn er að koma okkur vel fyrir á aðalmarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu með aðstöðu til ákveðinnar framleiðslu, úrvinnslu á afurðum okkar og sölu og dreifingar.“

Samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því í mars síðastliðnum stendur ekkert í vegi fyrir samruna KS sölu, sem er dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga í 100 prósent eigu þess, Esju Gæðafæðis og Gallerís Kjöts. Sameiginleg markaðshlutdeild fyrirtækjanna árið 2015 hafi verið undir þrjátíu prósentum í kinda- og nautakjöti, undir 20 prósentum í hrossakjöti og undir fimm prósentum í svínakjöti á innanlandsmarkaði. Það gefi ekki til kynna að markaðsráðandi staða sé að myndast.

Kaupverð á húsnæðinu eða fyrirtækjunum fékkst ekki upplýst hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. 

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 21. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×