Viðskipti innlent

Kaupa hlutabréf af eigendum fyrir 500 milljónir króna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna, segir að ekki verði tekið lán út af þessu.
Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna, segir að ekki verði tekið lán út af þessu. vísir/valli
Eigendur HS Veitna ætla að láta fyrirtækið kaupa af þeim hlutabréf fyrir hálfan milljarð króna.

Á hluthafafundi 19. febrúar verður lagt til að keypt verði eigin hlutabréf fyrir 500 milljónir á verði sem sé í samræmi við innra virði ársins 2015.

Ef af verður mun Reykjanesbær fá 250,5 milljónir króna út, HSV Eignarhaldsfélag slhf, sem er í eigu Heiðars Guðjónssonar og tengdra aðila, fær 171,9 milljónir króna, Hafnarfjarðarbær fær 77 milljónir og Sandgerðisbær 500 þúsund krónur.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna, segir ekki verða tekið lán vegna þessa. „Það var skuldabréfaútgáfa í fyrra og við erum þokkalega staddir með lausafé,“ segir Júlíus. HS Veitur gáfu út nýjan skuldabréfaflokk í fyrra að að nafnvirði 2,5 milljarðar króna.

Júlíus segir ætlunina að lækka eigið fé.

„Menn lækka eigið fé með því að borga arð eða kaupa eigin bréf. Það kemur út á eitt fyrir fyrirtækið, en ekki fyrir hluthafana. Þetta er sín leiðin hvor til þess að hluthafar fái eitthvað fyrir sína eign,“ segir Júlíus.

Á aðalfundi HS Veitna 18. mars í fyrra var gengið frá kaupum á eigin hlutabréfum að nafnvirði 262,1 milljónir. Júlíus segir ekki fyrirfram ákveðið að gera þetta á hverju ári, heldur sé ákveðið í hvert skipti fyrir sig hvort þetta sé gert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×