Sport

Katrín Tanja aðeins sex sekúndum frá sigri í fyrstu grein dagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Vísir/GVA
Katrín Tanja Davíðsdóttir náði öðru sæti í fyrstu greininni á þriðja degi í einstaklingskeppni kvenna á heimsleikunum í Crossfit sem standa nú yfir í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Katrín Tanja komst upp í fimmta sætið á heildarlistanum eftir frammistöðu hennar í dag og er einu sæti á eftir Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur sem er efst af íslensku stelpunum.

Greinin sem keppt var fyrst í á þessum þriðja degi heitir Murph en þá hlaupa allir keppendur eina mílu, gera síðan allskonar æfingar og hlaupa síðan aftur eina mílu.

Katrín Tanja Davíðsdóttir kom í mark á frábærum tíma eða 36:48.43 mínútum. Sú sem vann var aðeins sex sekúndum á undan Katrínu Tönju.

Katrín Tanja hefur verið inn á topp ellefu í fjórum af fyrstu fimm greinunum en fékk aðeins fjögur stig fyrir grein tvö sem gæti komið í bakið á henni þegar upp er staðið.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir varð í 11. sæti í þessari fyrstu grein dagsins en hún kom í mark á 40:31.08 mínútum.

Annie Mist Þórisdóttir var í efsta sæti eftir fyrsta daginn en hún er nú komin niður í sjöunda sæti eftir að hafa náð bara 24. sæti í fyrstu greininni á þriðja degi.

Annie Mist hefur verið í 23. og 24. sæti í síðustu tveimur greinum eftir að hafa hækkað sig í fyrstu þremur greinunum og unnið þriðju greinina.

Annie Mist kom í mark á 42:54.62 mínútum. Hún er nú átta stigum á eftir sjötta sætinu og 80 stigum á eftir Samönthu Briggs sem er efst.

Þuríður Erla Helgadóttir er í 18. sæti í heildarkeppninni eftir að hafa náð fjórtánda besta tímanum í fyrstu grein dagsins. Þuríður Erla kom í mark á 40:54.97 mínútum.

Björgvin Karl Guðmundsson stóð sig líka mjög í karlakeppninni og er kominn upp í fjórða sætið í heildarkeppninni eftir að hafa náð fimmta besta tímanum. Hann kom í mark á 38:06.84 mínútum.

Þetta er fyrsta grein dagsins af þremur en næst á dagskrá er Squat Clean Pyramid en þá er keppt í hnébeygjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×