Innlent

Kaþólski biskupinn hafnar ásökunum um þöggun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Herra Pétur Bürcher biskup hafnar ásökunum um þöggun. Mynd/ GVA
Herra Pétur Bürcher biskup hafnar ásökunum um þöggun. Mynd/ GVA
Það er rangt að halda því fram að kaþólski biskupinn á Íslandi hafa þagað yfir ásökunum á hendur starfsmönnum kaþólsku kirkjunnar um kynferðislegt ofbeldi. Þetta segir Pétur Bürcher, biskup kaþólsku kirkjunnar, í yfirlýsingu til fjölmiðla vegna umfjöllunar Fréttatímans um ásakanir á hendur fyrrverandi skólastjóra Landakotsskóla og samstarfskonu hans sem eru látin.

„Rétt er að síðastliðinn vetur fékk biskup kaþólsku kirkjunnar bréf þar sem lýst var kynferðislegri áreitni á hendur einum af prestum kirkjunnar sem þá var nýlátinn. Þá kom fram í bréfinu að bróðir viðkomandi hafi orðið fyrir áreitni af hálfu fyrrum skólastjóra Landakotsskóla og samstarfskonu hans sem einnig eru látin," segir í yfirlýsingu biskups.

Herra Pétur Bürcher segir að af hálfu embættis sins hafi þá þegar verið brugðist við með þeim hætti að fundað hafi verið með viðkomandi manni og í kjölfarið átt sér stað bréfaskipti milli aðila. Kaþólska kirkjan hafi ekki getað tekið afstöðu til þeirra alvarlegu ásakana sem settar voru fram gagnvart fyrrum starfsmönnum kirkjunnar. Sá sem bar fram ásakanirnar hafi verið hvattur til að leita til yfirvalda vegna málsins og myndi kirkjan veita alla þá aðstoð sem unnt væri til að upplýsa málið.

Í yfirlýsingu biskups kaþólsku kirkjunnar kemur fram að úrlausn málsins hafi verið unnin í samráði við lögmann kaþólsku kirkjunnar. Biskupinn hafi verið boðaður til fundar í innanríkisráðuneytinu. Þann fund hafi ráðherra setið auk ráðuneytisstjóra, fulltrúa lögreglu og Barnaverndarstofu. Biskup kaþólsku kirkjunnar hafi gert grein fyrir viðbrögðum við áðurnefndu bréfi og upplýst ennfremur að kirkjan í samráði við biskupa í hinum Norðurlöndunum ynni að gerð samræmdrar áætlunar við viðbrögðum við málum eða ásökunum af þessu tagi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×