Innlent

Kaldrifjaður forstöðumaður skattasviðs

Valur Grettisson skrifar
Indriði H. Þorláksson.
Indriði H. Þorláksson.

Fyrrverandi ríkisskattstjóri, Indriði Þorláksson, telur það heldur kaldrifjað að fyrrum forstöðumaður skattasviðs Landsbankans, Kristján Gunnar Valdimarsson, hafi farið með umsjón fjögurra eignarhaldsfélaga sem öll eru skrásett á karabísku eyjunni Tortola.

Það var Morgunblaðið sem sagði frá því að eignarhaldsfélögin Proteus Global Holding S.A., Kargile Portfolio Inc, Peko Investment Company Ltd. og Marcus Capital Ltd væru öll skráð á eyjunni. Að auki kemur fram í frétt Morgunblaðsins að öll þessi félög hafi keypt hlutabréf í bankanum og geymt fyrir hann þangað til starfsmenn hans nýttu sér kauprétti sem þeir áunnu sér samkvæmt samningum. Félögin voru öll á lista yfir 20 stærstu hluthafa í Landsbankanum á tímabili.

„Mér finnst þetta bera merki þess að þarna sé verið að sniðganga skattinn,“ segir Indriði sem spyr einnig hver tilgangurinn hafi verið með því að leyna eignarhaldi félaganna með þessum hætti. Indriði telur að með viðskiptunum hafi myndast gengishagnaður og að öllum líkindum hafi einnig myndast skattskyldar tekjur. Þar sem félögin voru skráð á Tortola eyjunum þá þurfa félögin ekki að borga skatt, heldur eingöngu 300 dollara endurnýjunargjald. Það eru rúmar 34 þúsund krónur.

Indriði veltir því fyrir sér hver hafi síðan fengið hagnaðinn af þessum viðskiptum, hvort hann hafi runnið í sama félag. Aðspurður þykir honum ekki ólíklegt, þó hann vilji ekki slá því á fast, að bankinn hafi leyst hagnað þessara viðskipta til sín.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×