Skoðun

Kæri Jón, friðum Úlfarsfellið!

Þórdís Hauksdóttir skrifar
Af því tilefni að friðun dýrmætra útivistarsvæða borgarbúa er til umfjöllunar skorar undirrituð, íbúi í Reykjavík, á þig, kæri borgarstjóri, að snúa leiftursnöggt við markvissum lögbrotum á hinni einstöku útivistarperlu Úlfarsfelli. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi byggingarleyfi fyrir fjarskiptamöstrum á toppi fellsins fyrir rúmu hálfu ári með þeim rökum að engin lagastoð hefði verið fyrir leyfinu. Úlfarsfell er skilgreint óbyggt svæði til útivistariðkunar og ólöglegt að byggja þar nema í mesta lagi göngustíga að gefnum ströngum skilyrðum samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Þrátt fyrir það sýnir starfsfólk Reykjavíkurborgar engin merki þess að gera Vodafone að fjarlægja hin ólöglegu mannvirki, þvert á móti. Í því ljósi er undarlegt að ræða friðun mikilvægra útivistarsvæða borgarinnar eins og Öskjuhlíðar og Elliðaárdals á meðan staðið er að því að fórna stórfenglegri náttúruperlu innan borgarmarka í þágu hagsmuna stórfyrirtækis.

Við hljótum að gera þá kröfu að starfsmenn borgarinnar, launþegar hjá mér og þér, vinni starf sitt af heilindum og heiðarleika og fari að landslögum án undantekninga.

Byggingarfulltrúi, borgarfulltrúar og skipulagsstjóri hafa um mánaða skeið komið fram við íbúa og félagasamtök sem láta sig framtíð Úlfarsfells varða á þann hátt að þeim sé það í sjálfsvald sett að hlíta opinberum úrskurðum og ályktunum; barið höfði við stein andspænis þeirri staðreynd að engin lög heimiluðu afhendingu umrædds byggingarleyfis til aðila sem fóru fram með gríðarlegu jarð- og náttúruraski á kórónu einhverrar vinsælustu útivistarperlu höfuðborgarsvæðisins. Almennum borgurum var hvergi gefinn kostur á lýðræðislegri aðkomu vegna leyfisveitingarinnar, eins og lög gera ráð fyrir, sem er alvarlegt umhugsunarefni og ástæða til að spyrja hvers vegna meðvitað og markvisst var sneitt hjá lögbundnu ferli.

Framganga Vodafone

Starfsmenn Vodafone sem fóru fyrir framkvæmdum á Úlfarsfelli voru ekki til viðræðu við fólk um þær varanlegu eyðileggingar á hlíðum og tindi fellsins sem fyrirtækið stóð fyrir með fjölda stórvirkra vinnuvéla, eða þá staðreynd að fegursti tindur fellsins yrði vegna ójónaðrar geislunar girtur af og ekki ætlaður fólki í framtíðinni. Í stað þess að sýna umhyggju fólks fyrir umhverfi sínu skilning og virðingu var talað í niðurlægjandi tóni til almennra borgara og yfirverkstjóri sýndi af sér slíkan hroka að milljóna auglýsingar fyrirtækisins nú í öllum fjölmiðlum og strætóskýlum um góð samskipti, virðingu og þolinmæði hljóma eins og loftsteinadrífa. Þolinmæði var ekki til að dreifa þegar starfsmenn hlógu að þeim sem bentu á að skynsamlegra væri að fyrirtækið hinkraði með óafturkræft jarðrask á útivistarperlu meðan kæra væri í ferli varðandi lögmæti þess.

Efstihnúkur á heimsmælikvarða

Efstihnúkur sem nú hefur verið höggvinn sundur er útsýnispallur á heimsmælikvarða og líklega fá dæmi um annað eins víðsýni í höfuðborg. Af hnúknum ber m.a. fyrir augu: Snæfellsjökul, Snæfellsnes, Akranes, Akrafjall, Botnsúlur, Esju, Ármannsfell, Kistufell, Skálafell, Hrafnabjörg, Kálfstinda, Dyrfjöll, Hengil, Hengilssvæði, Húsmúla, Skarðsmýrarfjall, Bláfjöll, Keili, Suðurnes, Reykjavík, sund, eyjar, Geldinganes, Mosfellsdal, Reykjadal, Úlfarsárdal, Hafrafell, Hafravatn, Reynisvatn, Hólmsheiði…

Orð Guðbjargar Thoroddsen um ætlun Gríms Norðdal, fyrrverandi eiganda jarðarinnar Úlfarsfells og Efstahnúks, lýsa vel hug og hugsjónum þeirra sem best til þekkja: „Grímur var hugsjónamaður sem unni mannfólkinu fyrst og fremst. Hann gaf Reykjalundi í Mosfellsbæ Efstahnúk fyrir mörgum árum og sagði hann mér ánægður frá því að hann hefði látið það fylgja gjöfinni að gerður yrði akfær vegur upp á Efstahnúk til að fatlaðir kæmust þangað upp til að sjá það einstaka og stórkostlega útsýni sem þaðan er. […] Nú eftir að Reykjavík kaupir þetta svæði er engin virðing og lítið um hugsjónir fyrir utan þá einu sem er „hver á auðinn og völdin“ og það skal ráða för. Væri nú ekki skárra að gera þarna eitthvað fallegt í anda Gríms sáluga og láta mastur […] eitthvert annað þar sem ekki er náttúruperla?“

Úlfarsfell er óumdeilanlega í sérflokki vegna víðsýnisins en á sama tíma lífræn heild þar sem einstakar fuglategundir eiga aðsetur, þar á meðal sjaldgæfar uglur. Engan þarf því að undra þann fjölda fólks sem fjallið laðar að dag hvern.

Borgin leiðrétti lögbrot

Brotalöm í stjórnsýslu borgarinnar sem opinberast með þeim hætti að embættismenn og borgarfulltrúar hampa stórfyrirtæki á kostnað réttlætis og lýðræðis og reyna að fengnum dómi að sveigja reglugerðir að röngum ákvörðunum eftir á tilheyrir ekki heiðarlegri og skemmtilegri stjórnsýslu af því tagi sem þú stendur fyrir og vilt skapa, kæri borgarstjóri. Lögbrot eru ekki valkvæð í opinberum störfum heldur kalla á leiðréttingu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×