Viðskipti innlent

Kæra Íbúðalánasjóð til ESA

Sveinn Arnarsson skrifar
Íbúðalánasjóður er í Höfðaborg við Borgartún í Reykjavík.
Íbúðalánasjóður er í Höfðaborg við Borgartún í Reykjavík. Fréttablaðið/GVA
Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búseta, telur fulla ástæðu til að kæra Íbúðalánasjóð til umboðsmanns Alþingis og Eftirlitsstofnunar Evrópu (ESA), vegna starfsemi leigufélagsins Kletts. Hann hefur látið útbúa lögfræðiálit vegna þessa og leggur á næstunni kæru fyrir stjórnarfund. Þetta kom fram á aðalfundi Búseta á Norðurlandi í byrjun vikunnar.

Málatilbúnaður Búseta byggir á að Íbúðalánasjóð skorti lagaheimild til að reka leigufélag. Eins sé það í ósamræmi við góða viðskiptahætti að eiga og reka íbúðir í samkeppni við eigin viðskiptamenn.

Árið 2012 var bætt við húsnæðislög ákvæði um að verkefni Íbúðalánasjóðs væru til að mynda að eiga leigufélag með íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur yfirtekið á nauðungarsölu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur. Sú reglugerð sem lögin tilgreina hefur hins vegar aldrei litið dagsins ljós.

Forsvarsmenn Búseta telja þarna um markaðsskekkjandi ráðstafanir að ræða. Íbúðalánasjóður sé í of nánum samskiptum við keppinauta á markaði, þar sem þeir haldi á öllum gögnum varðandi Búseta. Í venjubundnum samkeppnisrekstri væri þetta ekki ásættanlegt ástand.

Á aðalfundi Búseta á Norðurlandi á mánudaginn var gagnrýndi Benedikt Íbúðalánasjóð harðlega og taldi félagið ekki hafa notið sannmælis í samskiptum við sjóðinn.

„Neikvætt viðhorf einstakra stjórnenda Íbúðalánasjóðs til húsnæðissamvinnufélaga hefur gert félaginu erfitt fyrir. Misvísandi, og í sumum tilvikum röng upplýsingagjöf, er alvarlegur hlutur.“

Einnig sagði Benedikt frá því á fundinum að með „pólitískum bellibrögðum“ hefði leiðrétting verðtryggðra lána ekki verið látin ná til búseta í almennum íbúðum húsnæðissamvinnufélaganna. Sagði hann frá því að félagið ynni að því í samstarfi við Búseta í Reykjavík og Búmenn að fá einnig þann forsendubrest leiðréttan.

Búseti á Norðurlandi á og rekur um 220 íbúðir á Akureyri sem félagið leigir út með búsetufyrirkomulagi. Tekist hefur að endurfjármagna lán Búseta hjá Íbúðalánasjóði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×