Erlent

Juncker gagnrýnir „sorglegar hetjur“ Brexit

Samúel Karl Ólason skrifar
Nigel Farge, Boris Johnson og Jean-Claude Juncker.
Nigel Farge, Boris Johnson og Jean-Claude Juncker. Vísir/EPA
„Brexit-hetjur gærdagsins eru sorglegar hetjur dagsins í dag.“ Þetta sagði Jean-Claude Juncker, forseti Framkvæmdastjórnar ESB í dag. Hann gagnrýndi þá Boris Johnson og Nigel Farage harðlega fyrir að hafa skapað mikið óvissuástand í Bretlandi og Evrópu og skorast svo undan ábyrgð.

Juncker sagði á Evrópuþinginu í dag að Johnson og Farage elski ekki föðurland sitt, því slíkir menn yfirgæfu lönd sín ekki þegar erfiðleikar ganga yfir.

Johnson ætlaði sér að reyna að verða formaður Íhaldsflokksins en hætti við og Farage hefur sagt af sér formennsku í UKIP og ætlar að hætta í stjórnmálum.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni setti hann einnig út á stuðningsmenn „Leave“ hreyfingarinnar svokölluðu sem studdi að Bretland myndi yfirgefa ESB, fyrir að hafa ekki hugmynd hvað ætti að gera næsta. Nú væru Bretar einfaldlega að tefja og þeir vildu ekki „taka í gikkinn“.

„Í stað þess að búa til áætlun, yfirgefa þeir skipið.“

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði í dag að þjóðir Evrópu vonuðust til þess að eiga í góðu sambandi við Bretland. Hann sagði þó að Bretar yrðu að sætta sig við reglur ESB um frjálsa fólksflutninga ef þeir vildu hafa aðgang að sameiginlegum markaði ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×