Skoðun

Jón Ásgeir Jóhannesson: Missti sjónar á góðum gildum

Jón Ásgeir Jóhannesson skrifar
Ekki varð annað séð en að umhverfi og aðstæður í viðskiptalífinu, sem mótuðu mína kynslóð, fælu í sér mikil tækifæri með vaxandi frjálsræði og opnun heima fyrir og samtímis með nýjar og jákvæðar forsendur fyrir þátttöku í viðskiptum á alþjóðavettvangi. Vextir á heimsvísu voru um skeið mjög lágir og aðgangur að lánsfé auðveldur. En ekki er allt sem sýnist.

Í þessu umhverfi áformaði ég á sínum tíma að byggja upp fyrirtæki sem ég gæti verið stoltur af og sem gæti látið gott af sér leiða fyrir samfélag okkar. Sumt tókst. Annað ekki. Í tólf ár vann ég ásamt frábæru samstarfsfólki, dag og nótt, að því að byggja fyrirtækið upp og efla það. Nú er sú starfsemi ekki lengur í mínum höndum. Ég fór of geyst og færðist of mikið í fang á of skömmum tíma. Ég sé skýrt eigin yfirsjónir og dreg enga fjöður yfir þær þótt þungbærar séu.

Djúp kreppa afhjúpaði ríkjandi aðferða- og hugmyndafræði og stefna í fjármála- og viðskiptaheiminum var að stórum hluta byggð á vanhugsuðum kennisetningum og óraunhæfum forsendum, og þá þegar á alvarlegum villigötum og dæmd til að hrynja innan tíðar eins og á daginn kom. Það blasir nú við í bakspeglinum. Rekstur gat um sinn haldist í járnum á yfirborðinu, eignir hækkað í verði og þannig þanið út efnahagsreikninginn - en án raunverulegrar verðmætasköpunar. Sú sápukúla sprakk með eftirminnilegum hætti.

Haustið 2008 brast á í heiminum fjármálaofviðri, sem feykti um koll hinu útbólgna kerfi sem hrundi eins og spilaborg. Tími sjálfsblekkinga og draumóra var að renna út. Fyrirtæki sem ég tengdist töpuðu miklu, en hurfu ekki til fulls af vettvangi. Eignir sem Baugur og tengdir aðilar áttu eru enn að greiða upp í skuldir og skapa verðmæti fyrir veðhafa Baugs. Nefna má hér House of Fraser, Iceland Foods, Goldsmith, Hamleys, Karen Millen, All Saints, Magasin, Haga og fleiri.

Allt þetta breytir hins vegar engu um það, að ég hefði átt að draga miklu hraðar saman seglin er óveðursskýin hrönnuðust upp síðari hluta ársins 2007. Verstu mistökin voru fjárfesting Baugs Group í desember það ár í FL Group, sem aftur átti hlutafé í Glitni banka. Þar réðist Baugur í illilega misheppnaða björgunaraðgerð sem að endingu bar fyrirtækið ofurliði. Í septemberlok haustið 2008 var hlutaféð orðið verðlaust. En þessi grein er ekki skrifuð með það fyrir augum að tíunda í smáatriðum neinar útskýringar, rök eða afsakanir mér til málsbóta, né varpa sök og ábyrgð á aðra. Markmið hennar er af öðrum toga eins og ég vona að mér auðnist að gera lesendum ljóst.

Fyrstur manna skal ég sjálfur viðurkenna, hversu margt mátti betur fara í þessu ferli. Í von um að geta bjargað fyrirtækjunum lagði ég allt undir í tilraunum sem þó reyndust alls ófullnægjandi, og ég sé glöggt að ég missti iðulega sjónar á góðum gildum og mörgu því sem mestu skiptir í lífinu. Því verður ekki með orðum lýst, hvernig mér líður vegna mistaka minna og afleiðinga þeirra. Þær yfirsjónir verða ekki aftur teknar. Við það verð ég að lifa. Fjármuni í felum á aflandseyjum á ég enga. En ég heiti íslensku þjóðinni því að gera allt sem í mínu valdi stendur til að bæta fyrir mistök mín og leggja mitt af mörkum til að byggja Ísland upp að nýju.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×