Innlent

Jólaverslun veldur kaupmönnum vonbrigðum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Spáð hafði verið fjögurra til fimm prósenta aukningu á milli ára en allt bendir til þess að jólaverslun standi í stað.
Spáð hafði verið fjögurra til fimm prósenta aukningu á milli ára en allt bendir til þess að jólaverslun standi í stað. Vísir/Anton/Stefán
Jólaverslun í ár er algjörlega sambærileg við það sem var í fyrra sem eru nokkur vonbrigði fyrir verslunarfólk. Rannsóknarsetur verslunarinnar hafði spáð fjögur til fimm prósenta aukningu frá síðasta ári en ekki er útlit fyrir að það gangi eftir.

„Hún er algjörlega á pari við það sem hún var í fyrra, það er engin stór stökk. Eins og þetta lítur út núna þá virðist verslunin vera mjög svipuð og í desember í fyrra,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar- og þjónustu.

Andrés segir að það séu viss vonbrigði. „Rannsóknarsetur verslunarinnar var búið að gera ráð fyrir 4-5 prósent aukningu og það hefur örugglega verið byggt á opinberum tölum um aukin kaupmátt og umhverfið almennt í hagkerfinu, að því leitinu eru þetta vonbrigði.

Endanlegar tölur um jólaverslun munu liggja fyrir í janúar og því ekki hægt að segja til um nákvæmlega þróun á milli ára fyrr en þá. En hvað getur skýrt þessa stöðnun? „Það er mjög erfitt að ráða í hvað veldur,“ segir hann og bætir við: „Veðrið er náttúrulega að spila einhverja rullu, ekki þó afgerandi, en það kann að vera að fólk haldi að sér höndum í meira mæli en það hefur gert.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×