Innlent

Jökulsárgljúfur rýmt á innan við sex tímum ef gos hæfist

Sveinn Arnarsson skrifar
Gönguleiðum í grennd við Dettifoss hefur verið lokað
Gönguleiðum í grennd við Dettifoss hefur verið lokað
Áætlun er til um að rýma Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur ef til eldgoss kæmi í Bárðarbungu. Þetta segir Hjörleifur Finnsson þjóðgarðsvörður.

„Viðbragðsáætlunin hefur verið yfirfarin og hefur verið í mótun hjá okkur, Almannavörnum og lögreglunni allt frá því óvissustigi var lýst yfir. Viðbragðsáætlunin tekur til svæðis á milli Dettifoss í suðri og að Ásbyrgi í norðri. Þetta svæði munum við rýma eins fljótt og auðið er. Svæðið er ekkert stórt í sjálfu sér en það eru margar gönguleiðir vestan árinnar sem þyrfti að fara um,“ segir Hjörleifur.

Hann telur að það muni taka starfsmenn og björgunarsveitir um sex tíma að rýma allt svæðið og að gengið yrði í það verk um leið og fregnir bærust um að eldgos væri hafið. Staðarhaldarar í Ásbyrgi vænta þess af gestum svæðisins að þeir sæki sér upplýsingar á innan við sex klukkustunda fresti til þess að vera vel upplýstir um stöðu mála.

„Við höfum lokað einni gönguleið þar sem við vitum að er ekki símasamband. Þetta gerum við til að tryggja það að hægt sé að ná til fólks ef það er á svæðinu. Þar er um að ræða gönguleiðir í Hafragilsundirlendi, rétt neðan við Dettifoss.“

Hjörleifur telur það afar raunhæft að rýma svæðið á innan við sex tímum. „Við höfum á að skipa bæði fjórhjólum og vélhjólum, sem og gangandi mönnum einnig. Við leggjum áherslu á svæðið vestan Jökulsár þar sem gönguleiðirnar eru en björgunarsveitirnar munu síðan rýma svæðið austan ár. Við teljum þetta raunhæft og munum því rýma svæðið bæði til norðurs og suðurs,“ segir Hjörleifur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×