Innlent

Jóhanna mótmælti við rússneska sendiráðið

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Samtökin 78 stóðu í dag fyrir mótmælum við rússneska sendiráðið. Allt að 200 manns tóku þátt í mótmælunum og vakti helst athylgi að Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, tók virkan þátt í mótmælunum.

Mótmæli fóru fram víða um heim í dag við rússnesk sendiráð. Aðgerðir rússneskra stjórnvalda í garð samkynhneigðra hafa verið harðlega gagnrýnd. Sigurður Júlíus Guðmundsson, varaformaður Samtakanna 78, vonar að mótmælin fái helstu leiðtoga heimsins til að taka málið upp við Vladímír Pútin, Rússlandsforseta, þegar leiðtogarnir hittast á leiðtogafundi 20 stærstu ríkja heims í St. Pétursborg í vikunni.

„Við erum afar ánægð með mætinguna og það var mjög gaman að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur taka þátt. Það er gott að sjá að hún er sýnileg á þessum vettvangi og sýni stuðning,“ sagði Sigurður Júlíus.

Fleiri þekktir Íslendingar tóku þátt í mótmælunum í dag og má þar m.a. nefna Pál Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmann. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hélt ræðu. Myndir frá mótmælunum má sjá hér að ofan.

Jóhanna Sigurðardóttir var meðal þeirra sem mótmæltu í dag.Myndir/Stefán.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×