Innlent

Jóhanna ætlar að sitja heima

Jóhanna ætlar ekki að kjósa.
Jóhanna ætlar ekki að kjósa.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ætlar ekki að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave á morgun.

„Mér finnst þetta markleysa og finnst mjög dapurlegt að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá stofnun lýðveldisins verði um lög sem þegar eru orðin orðin úrelt. Í ljósi þess sé ég engan tilgang í að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu," sagði Jóhanna í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi.

„Enginn talar lengur fyrir samþykkt þessara laga, málið hefur breyst það mikið á síðustu vikum og við erum nú þegar með í hendi hagstæðari lausn sem nemur sjötíu milljörðum króna í greiðslubyrði."

Í gærkvöldi taldi Jóhanna ekkert benda til að nýir samningar tækjust fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu en kvaðst vona að hægt verði að taka upp þráðinn í viðræðunum við Breta og Hollendinga eftir helgi. Hún ítrekaði að lausn verði að fást sem fyrst.

„Ég óttast að töfin geti farið að kosta okkur meira en ávinningurinn af nýjum samningi. ASÍ segir að þetta mál hafi nú þegar seinkað endurreisninni um hálft ár með þeim kostnaði sem því fylgir."

Jóhanna segist hafa orðið vör við ýmsan misskilning varðandi atkvæðagreiðsluna á morgun.

„Sumir virðast halda að málið hverfi ef lögin verða felld en það er mikill misskilningur. Það er líka misskilningur að málið fari beint fyrir dómstóla. Þjóðirnar þrjár verða að standa sameiginlega að slíku en Bretar og Hollendingar hafa alltaf hafnað þeirri leið."

Jóhanna bendir á að felli þjóðin lögin sem kosið verður um á morgun taki lögin frá í ágúst gildi. Við þau verði þó ekki búið.

„Bretar og Hollendingar féllust ekki á þau á sínum tíma og því tómt mál að tala um að við byrjum með hreint borð. Þá er ekki einu sinni gefið að þessi sjötíu milljarða króna hagstæðari greiðslubyrði verði í hendi."

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hvetja fólk til að mæta á kjörstað og greiða atkvæði gegn lögunum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, telur að samningsstaða Íslands styrkist ef lögin verða felld. Þá fari samningaviðræður fram við hreint borð.

- bþs





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×