Golf

Jim Herman leiðir á Honda Classic eftir fyrsta hring

McIlroy á fyrsta hring í gær.
McIlroy á fyrsta hring í gær. Getty
Bandaríkjamaðurinn Jim Herman leiðir eftir fyrsta hring á Honda Classic sem fram fer á PGA National vellinum en hann lék á 65 höggum eða fimm undir pari. Herman er nýliði á PGA-mótaröðinni og er neðarlega á Fed-Ex stigalistanum en hann rétt komst inn í mótið og er greinilega að nýta tækifærið til fulls.

Brendan Steele er einn í öðru sæti á fjórum höggum undir pari en Padraig Harrington, Martin Flores og Patrick Reed koma þar á eftir á þremur undir.

Besti kylfingur heims, Rory McIlroy, er mættur til leiks á PGA-mótaröðina eftir vetrarfrí en hann byrjaði ekki vel og kom inn á 73 höggum eða þremur yfir pari. Hann var á tímabili á fimm yfir pari en tveir fuglar á síðustu tveimur holunum björguðu Norður-Íranum frá því að vera meðal neðstu manna.

Fleiri stór nöfn voru í vandræðum á fyrsta hring en þar má nefna Graeme McDowell á fjórum undir og Dustin Johnson og Ernie Els á sjö yfir pari.

Golfstöðin sýnir beint frá Honda Classic alla helgina og hefst útsending frá öðrum hring klukkan 20:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×