Erlent

Jens Stoltenberg tekur við keflinu hjá NATO

Atli Ísleifsson skrifar
Jens Stoltenberg gegndi embætti forsætisráðherra Noregs á árunum 2000 til 2001 og 2005 til 2013.
Jens Stoltenberg gegndi embætti forsætisráðherra Noregs á árunum 2000 til 2001 og 2005 til 2013. Vísir/AFP
Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, tekur í dag við embætti framkvæmdastjóra NATO af Anders Fogh Rasmussen.

Á fréttamannafundi af því tilefni nú skömmu eftir hádegi sagði Stoltenberg það vera mikinn heiður að taka við embættinu sem hann lýsti sem krefjandi starf á krefjandi tímum.

Stoltenberg segist þó hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá öllum bandalagsríkjum. „Við verðum að vera með öflugt NATO og öflugt samstarf milli Evrópu og Norður-Ameríku.“

Í frétt Verdens Gang kemur fram að Stoltenberg segi öll bandalagsríkin verða að axla ábyrgð og að bandalagið verði að geta tekið ákvarðanir á hættutímum þar sem aðstæður bretyast fljótt.

Stoltenberg sagðist vilja heimsækja öll bandalagsríkin og hefur skipulegt ferðir til Póllands og Tyrklands á næstu dögum.

Hann sagði ástandið í Úkraínu vera mikla áskorun fyrir öryggi bandalagssvæðisins. „Við getum ekki gert málamiðlanir þegar kemur að öryggi Evrópu og Norður-Ameríku. Við verðum að sjá breytingar í aðgerðum Rússlands,“ og bætir við að hann sjái enga mótsögn í því að hafa sterkt NATO og að eiga gott samstarf við Rússland.

Stoltenberg sagði jafnframt bandalagið ætla að halda áfram stuðningi sínum við Afganistan.

Í frétt danska ríkisútvarpsins kemur fram að Anders Fogh Rasmussen hafi stofnað ráðgjafafyrirtæki, Rasmussen Global, sem hann komi til með að sinna nú þegar hann hafi látið af embætti framkvæmdastjóra NATO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×