Handbolti

Jenný samdi við ÍBV og Erla Rós verður áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir og Guðný Jenný Ásmundsdóttir fagna saman Íslandsmeistaratitli með Val.
Hrafnhildur Skúladóttir og Guðný Jenný Ásmundsdóttir fagna saman Íslandsmeistaratitli með Val. Vísir/Daníel
Eyjamenn hafa gengið frá markmannsmálum kvennaliðsins fyrir næsta handboltatímabil. ÍBV fær til sín reynslumikinn markvörð og framlengdi jafnframt samning sinn við einn efnilegasti markmann landsins.

Eyjamenn sendu frá sér fréttatilkynningu í kvöld þar sem kom í ljós að þjálfarinn Hrafnhildur Skúladóttir fékk til sín markmann sem hjálpaði henni að vinna marga titla hjá Val.

Erla Rós Sigmarsdóttir framlengir samninginn sinn við ÍBV um tvö ár. Erla sem er einn efnilegasti leikmaður landsins er uppalin í Vestmannaeyjum og hefur alla tíð spilað fyrir ÍBV. Hún á að baki fjölda leikja með unglingalandsliðum Íslands auk þess að hafa spilað tvo leiki fyrir A landsliðið.

 

Guðný Jenný Ásmundsdóttir hefur gert tveggja ára samning við ÍBV um að leika með liðinu auk þess sem hún kemur inn í  þjálfarateymið. Hún á að baki 48 leiki fyrir íslenska landsliðið og hefur verið einn fremsti markmaður landsins um árabil. Jenný fór í barneignarfrí eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Val 2014.

Síðan þá hefur hún verið markmannsþjálfari hjá landsliðinu og hjá kvennaliði Fylkis, en hún endaði á að spila nokkra leiki í lok tímabils með Fylki með virkilega góðum árangri. Sara Dís sem var annar markmaður liðsins í vetur er að sækja um skóla á fastalandinu og þar að leiðandi vantaði annan markmann fyrir næsta tímabil.

Hrafnhildur Skúladóttir lagði mikla áherslu á að fá Jenný til ÍBV bæði þar sem hún er frábær markmaður auk þess sem hún hefur verið að gera góða hluti í markmannsþjálfun. Hrafnhildur þekkir vel til Jennýjar enda spiluðu þær lengi saman með Val hér á árum áður.

Guðný Jenný Ásmundsdóttir.Vísir/Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×