Erlent

Japan skoðar allar leiðir til að ná gíslunum úr haldi ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Yoshihide Suga, talsmaður stjórnvalda í Japan.
Yoshihide Suga, talsmaður stjórnvalda í Japan. Vísir/AFP
Yoshihide Suga, talsmaður stjórnvalda í Japan, segir þá skoða allar leiðir til að ná þeim Kenji Goto og Haruna Yukawa úr haldi Íslamska ríkisins. Japanir hafa þó ekki náð neinn hjá Íslamska ríkinu, en tveir japanskir ríkisborgarar sem þekkja til á svæðinu hafa boðist til að semja við ISIS.

Þá hafa Japanir ekki fengið nein skilaboð frá Íslamska ríkinu.

Sjá einnig: „Japan mun ekki láta undan hótunum hryðjuverkamanna“.

Íslamska ríkið birti á aðfararnótt þriðjudags myndband af Goto og Yukawa á hnjánum fyrir framan böðul ISIS, sem þekktur er sem Jihadi John. Hann sagði að ef Japan borgaði ISIS ekki 200 milljónir dala, eða um 26,4 milljarða króna, yrðu mennirnir teknir af lífi eftir 72 klukkustundir.

Að óbreyttu rennur frestur ISIS út í nótt.

Sjá einnig: Fór til Sýrlands til að bjarga vini sínum úr haldi ISIS.

Ko Nakata, sem er sérfræðingur um íslömsk lög, og prófessor í Kyoto, hefur sagt blaðamönnum að hann geti komist í samband við Íslamska ríkið. Hann hefur boðist til að reyna að semja um lausn gíslanna. Blaðamaðurinn Kosuke Tsuneoka, sem var í haldi hryðjuverkamanna í Afganistan árið 2010 hefur einnig boðið fram hjálp sína.

72 klukkutímar eru of lítill tími og ég er tilbúinn til að fara og semja um lausn þeirra,“ sagði Nakata við blaðamenn. Hann bað um að ISIS myndi ekki taka Goto og Yukawa af lífi og það að sleppa þeim úr haldi myndi bæta ímynd samtakanna.

Aðspurður hvort að stjórnvöld væru tilbúin til að taka boði mannanna sagði Suga að allar mögulegar leiðir væru skoðaðar.


Tengdar fréttir

Abe heitir því að frelsa gíslana

Forsætisráðherra Japans segist staðráðinn í að frelsa japönsku gíslana tvo sem vígasveitir Íslamska ríkisins hafa hótað að drepa, fái þeir ekki jafnvirði rúmlega 26 milljarða króna í lausnargjald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×