Skoðun

Já, til hvers?

Sigursteinn Másson skrifar

Sú ranghugmynd að iðnaðarveiðar á hval séu hluti arfleiðar og sögu þjóðarinnar hefur með áróðri stjórnvalda orðið að fullvissu margra þótt ekki eigi við nokkur rök að styðjast.



Þegar hvalveiðar við Ísland voru bannaðar með öllu í fimmtán ár árið 1913 varð Ísland eitt fyrst ríkja heims til að taka slíka ákvörðun. Iðnaðarveiðar íslenskra aðila hófust ekki fyrr en 1948 með tilkomu Hvals hf. Það er því afar hæpið að halda því fram að veiðarnar séu söguleg hefð þrátt fyrir nokkrar misheppnaðar tilraunir bænda á Vestfjörðum til iðnaðarveiða upp úr aldamótunum 1900. Eitt fyrirtæki, faðir og sonur, skapar vart þjóðarhefð.



Meira virði lifandi en dauður

En af hverju ekki að nýta hvalina eins og önnur dýr? Skoðum það í samhengi. Um 250.000 varppör æðarfugls eru í landinu, langstærsti andastofn landsins, og því í veiðanlegu magni. Litlar sveiflur hafa verið á stofnstærð og haustveiðar kæmu sennilega ekki niður á dúntekju en þótt fuglinn sé veiddur í Skandinavíu má ekki á það það heyra minnst á Íslandi. Það er vegna þess að hann er af flestum talinn meira virði lifandi en dauður en líka vegna tilfinningasjónarmiða. Eða er það annað en tilfinningar sem aftrar Íslendingum frá því að skjóta heiðlóu, spóa og skógarþresti? Og hvað er þá rangt við það að fólk um allan heim hafi tilfinningar gagnvart stærstu spendýrum jarðar? Þar fyrir utan er hvalaskoðun arðbær atvinnugrein sem skilar Íslandi umtalsverðum tekjum á meðan stórfellt tap er á hvalveiðum. Hvalurinn er því fyrir víst mun meira virði lifandi en dauður.



Nú er svo komið að engin leið virðist fyrir Kristján Loftsson að flytja langreyðakjötið sjóleiðina til Japan þar sem eini markaðurinn er fyrir það. Það er ekki aðeins vegna þess að hvalkjötið var að hluta ranglega skráð sem fiskur í síðustu sendingu til Rotterdam og Hamborgar heldur vegna þess að engin höfn, hvorki í Evrópu né í Bandaríkjunum, hefur áhuga á að umskipa því og skipafélög vilja ekki flytja það. Hve lengi ætla menn að berja höfðinu við steininn í anda Bjarts í Sumarhúsum? Já, til hvers hvalveiðar?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×