Erlent

Ivanka Trump tekur að sér ólaunað starf sem ráðgjafi pabba síns

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Ivanka og Donald Trump.
Ivanka og Donald Trump. Glamour/AFP
Ivanka Trump, dóttir Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hefur ákvæðið að taka við embætti í Hvíta húsinu.

Ivanka er þó nú þegar með skrifstofu í vesturálmu Hvíta hússins og var sú tilhögun ekki laus við gagnrýni.

Hún mun gegna starfi ráðgjafa föður síns en kemur ekki til með að þiggja laun fyrir. Mun Ivanka starfa við hlið eiginmanns síns, Jared Kushner, sem nú er ráðgjafi forseta.

Ivanka gaf frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún segir að hún muni starfa sem opinber starfsmaður og þannig hlíta sömu reglum og aðrir opinberir starfsmenn.

„Ég er búin að vinna náið með ráðgjöfum Hvíta hússins og mínum eigin ráðgjöfum til þess að finna titil á starfið mitt sem er fordæmalaust í eðli sínu,“ sagði Ivanka í yfirlýsingu sinni en starfstitill hennar mun verða „aðstoðarmaður forseta“.

Starfsheiti eiginmanns hennar er hins vegar „yfirráðgjafi“.

Talsmaður forseta gaf út tilkynningu vegna ráðningar Ivönku Trump í Hvíta húsið og kom þar fram að mikil ánægja væri með ákvörðun hennar.

„Okkur þykir afar ánægjulegt að Ivanka Trump skuli hafa kosið að taka þetta skref í átt að fordæmalausu hlutverki hennar sem „forsetadóttir. Sú staðreynd að Ivanka mun ekki þiggja laun fyrir starf sitt eflir enn frekar siðferðilega skuldbindingu okkar og eykur gagnsæi. Nýja starfið gerir henni kleift að hafa frumkvæði að jákvæðri stefnumörkun fyrir bandarískan almening,“ sagði í tilkynningunni.

Ivanka Trump starfaði áður sem fatahönnuður en hönnun hennar var seld undir hennar eigin nafni.

Í kjölfar forstakjörs föður hennar slitu fjölmargar verslunarkeðjur samningi sínum við Ivönku en nú er hönnun hennar seld í 26 verslunarkeðjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×