Erlent

Ísraelskur hermaður sakfelldur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ísraelski hermaðurinn Elor Azaria ásamt foreldrum sínum og unnustu áður en hann var sakfelldur í Tel Aviv í gær.
Ísraelski hermaðurinn Elor Azaria ásamt foreldrum sínum og unnustu áður en hann var sakfelldur í Tel Aviv í gær. vísir/afp
Ísraelskur hermaður var sakfelldur í gær af ísraelskum dómstól fyrir að hafa orðið Palestínumanni að bana í mars í fyrra.

Hermaðurinn, sem er tvítugur og heitir Elor Azaria, skaut Palestínumanninn þar sem hann lá hreyfingarlaus á götu í borginni Hebron á Vesturbakkanum.

Hann segist hafa talið að Palestínumaðurinn hafi getað verið með sprengjuvesti. Saksóknarar í málinu sögðu hann hins vegar hafa verið að hefna sín á Palestínumanninum, sem var 21 árs og hét Abdul Fatah al-Sharif.

Sharif hafði ásamt jafnaldra sínum, Ramzi Aziz al Qasrawi, veitt öðrum ísraelskum hermanni hnífstungusár. Þeim hafi tekist að stinga Ísraelann, en var svarað með byssuskotum frá ísraelsku hermönnunum. Báðir Palestínumennirnir særðust en um fimmtán mínútum síðar skaut Azaría á Sharif þar sem hann lá hreyfingarlaus á götunni. Það skot varð honum að bana.

Málið hefur vakið miklar deilur í Ísrael þar sem sitt sýnist hverjum. Yfirstjórn Ísraelshers segir framferði hermannsins alls ekki samræmast þeim reglum sem hermenn eiga að fara eftir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×