Innlent

Íslenska ríkið skattleggur mannssæði

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Ríkið skattleggur innflutt sæði sem notað er hér á landi til tæknifrjóvgunar, en Tollstjóraembættið skilgreinir það núna sem landbúnaðarafurð en ekki lífsýni, eins og áður. Þetta er mikil breyting, því sæðisinnflutningur hefur verið tollfrjáls í áratugi.

Það var DV sem greindi fyrst frá málinu á föstudaginn síðastliðinn. Tæknifrjóvgunarstofan Art Medica hefur kært þá ákvörðun tollstjóraembættisins að hætta skilgreina gjafasæði sem lífsýni og byrja að flokka það sem landbúnaðarvöru. Núna innheimtir ríkið 24,5 prósenta virðisaukaskatt af sæðisdropanum.

„Okkur finnst þetta skjóta skökku við og höfum kært þessa ákvörðun, þessa túlkun tollsins," segir Guðmundur Arason, kvensjúkdóma- og fæðingalæknir hjá Art Medica. „Þetta hefur skapað þann vanda fyrst og fremst að þetta hefur aukið kostnað hjá sjúklingum sem þurfa að nota gjafasæði. Þetta hefur einnig skapað vanda með greiðslur á gjafasæðinu og þá er hætta á að þetta skemmist í tollinum, ef þetta er þar of lengi og kemst ekki til okkar í geymslu," segir Guðmundur. Hann segir að þetta skapi gríðarleg vandræði og rugling. Þetta sé ekki skattlagt í öðrum EES-ríkjum eða í Evrópusambandinu.

Eftir að tollstjórinn ákvað að flokka mannssæði sem landbúnaðarvöru þá er það í raun yfirlýsing ríkisvaldsins um að það geri ekki neinn greinarmun á sæði úr nautgripum og sæði úr mönnum. Sæði úr báðum er skattlagt. Guðmundur segir að það sé ekki hægt með nokkrum rökum að komast að þeirri niðurstöðu að mannssæði sé landbúnaðarafurð, enda sé um lífssýni að ræða sem hafi ekki verið skattlagt áratugum saman.

Tollstjórinn hefur kæru Guðmundar og starfsfélaga hans hjá Art Medica til meðferðar hjá embættinu. Konur sem gangast undir tæknifrjóvgun hér á landi með erlendu gjafasæði skipta tugum á ári hverju.



















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×