Viðskipti innlent

Íslendingar högnuðust örlítið á Liborvaxtasvindlinu

Allar líkur eru á að Íslendingar hafi frekar hagnast örlítið en tapað á Libor vaxtasvindlinu sem nú er til rannsóknar í Bretlandi og víðar.

Greining Arion banka fer í saumana á Libor hneykslinu í Markaðspunktum sínum. Svindlið með þessa vexti fólst í tvennu, að reyna að hækka vextina og auka þannig eigin gróða eða reyna að lækka vextina og sýna þannig traust á bankanum því lántökukostnaður hans væri svo lágur. Seinna atriðið var bönkunum efst í huga í aðdraganda fjármálakreppunnar árið 2007 og þar eftir og þá eru líkur á að svindlið hafi lækkað liborvextina um tugi punkta eða allt að hálfu prósentustigi.

Erlend lán sem Íslendingar tóku á árunum fyrir fall íslenska bankakerfisins voru iðulega með breytilegum Libor vöxtum að viðbættu álagi. Í Markaðspunktunum segir að svindlið til að halda Libor vöxtunum uppi hafi haft nær engin áhrif hérlendis. En svindlið við að halda Libor vöxtum niðri hafi verið til einhverra takmarkaðra hagsbóta fyrir íslensk heimili og fyrirtæki, þótt áhrif þess blikni í samanburði við gengisfallið sem varð á árabilinu 2007-2009 og varð til þess að greiðslubyrði lánanna hækkaði mikið í krónum talið.

Íslenskar fjármálastofnanir, sem áttu stór útlánasöfn í erlendri mynt, hefðu hins vegar getað orðið af stærri upphæðum vegna þessa, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að margar þeirra fjármögnuðu sig með skuldabréfaútgáfu erlendis á kjörum tengdum Libor. Áhrifin ættu því að hafa nettast út að miklu leyti í reikningum þeirra, að því er segir í Markaðspunktunum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×