Viðskipti innlent

Íslandsbanki vill greiða 30% í arð

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Stjórnendur Íslandsbanka eru ánægðir með uppgjör síðasta árs. Eiginfjárhlutfall bankans er 25,5 prósent og stjórn hans vill greiða út arð.
Stjórnendur Íslandsbanka eru ánægðir með uppgjör síðasta árs. Eiginfjárhlutfall bankans er 25,5 prósent og stjórn hans vill greiða út arð.
Stjórn Íslandsbanka vill greiða allt að 30 prósent af hagnaði síðasta árs í arð til eigenda sinna. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi á miðvikudag. Hversu há möguleg arðgreiðsla verður mun verða ákveðið á aðalfundi bankans. Íslandsbanki hagnaðist alls um 23,4 milljarða króna eftir skatta á síðasta ári. Hámarksarðgreiðsla yrði því sjö milljarðar króna. Um 6,7 milljarðar króna af henni myndu renna til þrotabús Glitnis, sem á 95 prósenta hlut í Íslandsbanka, og um 300 milljónir króna til íslenska ríkisins.

Íslandsbanki birti uppgjör sitt fyrir árið 2012 í gær. Þar kom fram að hagnaður af reglulegri starfsemi bankans hefði verið 15,7 milljarðar króna, sem er 1,8 milljörðum krónum betri niðurstaða en á árinu 2011. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að útlán hafi verið mun meiri en árin á undan. Alls hafi um 100 milljarðar króna af „brakandi nýjum lánum" verið lánuð út á árinu 2012. Heildarinnlán bankans lækkuðu hins vegar á milli ára um alls 17 milljarða króna. Að sögn Birnu var það aðallega vegna samdráttar í innlánum fjármálastofnanna.

Alls hafa um 20.900 einstaklingar og fyrirtæki fengið 465 milljarða króna afskrifaða, leiðrétta eða gefna eftir með öðrum hætti frá stofnun bankans. Birna segir að allir endurútreikningar lána eigi að klárast á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×