Erlent

ISIS jafnar forna kirkju í Sýrlandi við jörðu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/Getty
Hermenn ISIS hafa eyðilagt kristna kirkju í sýrlenska bænum al-Qaryatain og tekið hóp kristna íbúa bæjarsins til fanga.

Herlið ISIS náði yfirráðum yfir bænum af sýrlenskum yfirvöldum fyrir tveimur vikum. Jarðýtur voru notaðar til að jafna Mar Elian kirkjuna við jörðu. Kirkjan var upphaflega byggð árið 432 á þeim stað þar sem heilagur Elías var talinn hafa látið lífið. Jarðneskar leifar hans mátti að sögn finna í grafhvelfingu kirkjunnar.

Um 100 íbúar bæjarins voru teknir til fanga og fluttir til Raqqa sem er eitt helsta vígi ISIS í Sýrlandi. Kristið fólk er að mati ISIS heiðingjar og hefur fjöldi kristna yfirgefið heimili sín í Sýrlandi og norður-Írak vegna ofsókna ISIS.

Alls er talið að 230.000 Sýrlendingar hafi látið lífið síðan borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst árið 2011. Ekkert lát er á átökum þar í landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×