Erlent

ISIS beittu sinnepsgasi gegn Kúrdum í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
35 Kúrdar veiktust í árásinni.
35 Kúrdar veiktust í árásinni. Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins beittu sinnepsgasi sveitum Kúrda í Írak í fyrra. 35 menn veiktust eftir stórskotaárás ISIS og hefur lengi verið talið að gasinu hafi verið beitt. Efnavopnastofnunin hefur nú staðfest það. Þetta er í fyrsta sinn sem efnavopnum er beitt í Írak, frá falli Saddam Hussein.

Efnavopnastofnunin (OPCW) hefur ekki birt niðurstöður rannsóknar sinnar en, en fréttamenn Reuters ræddu við embættismenn í Írak og starfsmenn stofnunarinnar.

Stofnunin hafði þó áður staðfest að sinnepsgasi hefði verið beitt í Sýrlandi í fyrra. Ekki liggur hins vegar fyrir hvernig ISIS komust yfir efnavopn, né hvort þeir eigi enn slík vopn. Embættismaður sem Reuters ræddi við sagði líklegt að vopnin hefðu komið úr vopnabúri stjórnvalda Sýrlands.

Sé það rétt, er ljóst að stjórnvöld þar hafi logið til um efnavopn sín. Þeim var eytt af OPCW árið 2013 og 2014. Hundruð manna létu lífið í Damascus árið 2013 þegar saríngasi var skotið á úthverfi borgarinnar. Vesturveldin sökuðu stjórnarher Assad um að framkvæma árásina en forsetinn hefur ávalt neitað því.

Annar sérfræðingur sem rætt var við segir mögulegt að ISIS hafi sjálfir framleitt vopnin í Mosul. Þar búi þeir yfir þeim efnum sem til þarf og kunnáttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×