Erlent

Íraski herinn sagður vanbúinn og ófús

guðsteinn bjarnason skrifar
Íraskir hermenn. Þessir standa vörð í Jurfal-Sakher, um 50 kílómetra suður af Bagdad.
Íraskir hermenn. Þessir standa vörð í Jurfal-Sakher, um 50 kílómetra suður af Bagdad. nordicphotos/AFP
Eftir að vígasveitir Íslamska ríkisins náðu borginni Ramadi í Anbar-héraði nokkuð skyndilega á sitt vald fyrir rúmlega viku hafa Bandaríkjamenn sakað íraska herinn um skort á baráttuvilja: „Við getum þjálfað þá, við getum útvegað þeim herbúnað, en við getum ekki gefið þeim baráttuviljann,“ sagði Ashton Carter varnarmálaráðherra.

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, dró þó í land eftir að Írakar brugðust ókvæða við þessum ásökunum. Hann sagði Bandaríkin vissulega gera sér grein fyrir hugrekki íraskra hermanna og þeim miklu fórnum sem þeir hafa fært.

Nú hefur íraski herinn tilkynnt að gagnsókn sé hafin og stefnt sé að því að ná Ramadi aftur hið fyrsta úr höndum vígasveitanna. Jafnframt er reynt að leita svara við því hvers vegna íraski herinn flúði mótstöðulítið frá Ramadi þegar vígasveitirnar réðust inn í borgina, þótt herinn hefði verið með mun fjölmennara lið en innrásarsveitirnar.

Samkvæmt samantekt á fréttavef þýska tímaritsins Der Spiegel eru það ekki síst írösk stjórnvöld sjálf sem bera ábyrgðina á því að herinn í súnnía-héruðum Íraks er vanbúinn til að takast á við vígasveitir Íslamska ríkisins.

Ástæðan er gagnkvæm tortryggni sjía og súnnía. Súnníar búa einkum í Anbar-héraði í vesturhluta Írans en í höfuðborginni Bagdad eru stjórnvöld að mestu í höndum sjía-múslima. Ríkisstjórnin er sögð hafa verið treg til að útvega hersveitum súnnía öflug vopn.

Afleiðingin er sú að Íslamska ríkið hefur náð góðum árangri á svæðum súnnía í Anbar-héraði í vesturhluta landsins en orðið lítt ágengt á svæðum sjía-múslima í suðausturhlutanum, hvað þá í hinum sjálfstæðu Kúrdahéruðum í norðurhlutanum þar sem vígasveitirnar hafa jafnan mætt harðri mótspyrnu.

Súnníarnir í Anbar-héraði telja ríkisstjórnina í Bagdad hafa brugðist sér illilega og segjast sumir jafnvel frekar kjósa að búa við ofríki Íslamska ríkisins en afskiptaleysi stjórnarinnar í Bagdad.

Bæði Bandaríkin og Íran hafa stutt stjórnina í Bagdad í baráttunni gegn vígasveitum Íslamska ríkisins. Bandaríkin hafa gert loftárásir og einnig útvegað sérsveitum íraska hersins þjálfun og búnað. Það eru þessar sérsveitir sem hafa borið hitann og þungann af baráttunni gegn Íslamska ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×